Sæmundur fróði og saga Odda – sögusýning Oddafélagsins í undirbúningi.
Vikuna 3. - 9. september stl. umbreyttist félagsheimilið Gunnarshólmi í Austur-Landeyjum í stórt ljósmyndastúdíó. Yfir vikuna mættu um 60 íbúar í Rangárþingi snemma að morgni, klæddu sig upp í miðaldabúninga og voru ljósmynduð í hlutverkum hinna ýmsu Oddaverja frá tímabilinu 930 til 1220.
Brynjar Ágústsson, ljósmyndari og Ella Reynis, búningameistari settust að í Gunnarshólma meðan á tökum stóð, enda var verkefnið stórt og yfirgripsmikið og margar tökur flóknar í lýsingu, í samsetningu búninga, skarts, leikmyndar og aukahluta. Friðrik Erlingsson, verkefnastjóri Oddafélagsins stóð vaktina með þeim, en myndatökurnar byggðu á hugmyndum hans um sýninguna „Sæmundur fróði og saga Odda.“
Teknar voru tuttugu og tvær mismunandi uppstillingar eða atriði úr sögu Oddaverja sem spannar yfir tímabilið 930 – 1220. Myndunum verður skipt upp á tíu stór skilti, ásamt texta á íslensku og ensku, og sett upp í hringlaga rjóðri í trjálundinum neðan við Oddakirkju. Hér fyrir neðan má sjá hugmynd um hvernig skiltaborgin mun líta út þegar hún er komin upp í Oddalundi.
Nú tekur við eftirvinnsla ljósmynda sem mun standa yfir í vetur. Undir vorið reiknum við með að myndirnar verði allar fullunnar. Oddafélagið stefnir að því að koma skiltunum upp í Oddalundi næsta sumar, sem væri viðeigandi þar sem núverandi Oddakirkja er 100 ára á næsta ári og því ærið tilefni að halda svolitla hátíð með uppsetningu sögusýningarinnar.
Hér fyrir neðan eru nokkrar símamyndir af atganginum, en taka skal fram að ekkert er að marka lýsinguna á þessum myndum, auk þess sem engir bakgrunnar eru enn komnir til sögunnar. Þetta er ennþá verk í vinnslu en myndirnar gefa svolitla hugmynd um umfang verkefnisins.
Sóknarnefnd og söfnuður Reykholtsprestakalls bauð þeim heiðurshjónum, sr. Geir Waage og frú Dagnýju Emilsdóttur, til hátíðardagskrár í Reykholti þar sem þeim var þakkað fyrir...