HeimFréttir og greinarSæmundur fróði og saga Odda - sögusýning Oddafélagsins í undirbúningi.

Sæmundur fróði og saga Odda – sögusýning Oddafélagsins í undirbúningi.

Vikuna 3. - 9. september stl. umbreyttist félagsheimilið Gunnarshólmi í Austur-Landeyjum í stórt ljósmyndastúdíó. Yfir vikuna mættu um 60 íbúar í Rangárþingi snemma að morgni, klæddu sig upp í miðaldabúninga og voru ljósmynduð í hlutverkum hinna ýmsu Oddaverja frá tímabilinu 930 til 1220.

Brynjar Ágústsson, ljósmyndari og Ella Reynis, búningameistari settust að í Gunnarshólma meðan á tökum stóð, enda var verkefnið stórt og yfirgripsmikið og margar tökur flóknar í lýsingu, í samsetningu búninga, skarts, leikmyndar og aukahluta. Friðrik Erlingsson, verkefnastjóri Oddafélagsins stóð vaktina með þeim, en myndatökurnar byggðu á hugmyndum hans um sýninguna „Sæmundur fróði og saga Odda.“

Teknar voru tuttugu og tvær mismunandi uppstillingar eða atriði úr sögu Oddaverja sem spannar yfir tímabilið 930 – 1220. Myndunum verður skipt upp á tíu stór skilti, ásamt texta á íslensku og ensku, og sett upp í hringlaga rjóðri í trjálundinum neðan við Oddakirkju. Hér fyrir neðan má sjá hugmynd um hvernig skiltaborgin mun líta út þegar hún er komin upp í Oddalundi.

Nú tekur við eftirvinnsla ljósmynda sem mun standa yfir í vetur. Undir vorið reiknum við með að myndirnar verði allar fullunnar. Oddafélagið stefnir að því að koma skiltunum upp í Oddalundi næsta sumar, sem væri viðeigandi þar sem núverandi Oddakirkja er 100 ára á næsta ári og því ærið tilefni að halda svolitla hátíð með uppsetningu sögusýningarinnar.

Hér fyrir neðan eru nokkrar símamyndir af atganginum, en taka skal fram að ekkert er að marka lýsinguna á þessum myndum, auk þess sem engir bakgrunnar eru enn komnir til sögunnar. Þetta er ennþá verk í vinnslu en myndirnar gefa svolitla hugmynd um umfang verkefnisins.

Margrét Ósk, Eik og Björk í 10. bekk Hvolsskóla komu fagnandi til að taka þátt í myndatökunni.
Sæmundur og Guðrún ásamt börnum sínum, Lofti, Eyjólfi og Þóreyju, en Loðmundur litli er enn í móðurkviði. f.v. Loftur/Elfar Egill Ívarsson, Eyjólfur/Patrekur Kári Friðriksson, Þórey/Emma Eir Ívarsdóttir, Guðrún Kolbeinsdóttir/Sæbjörg Eva Hlynsdóttir, Sæmundur Sigfússon/Dagur Ágústsson
Ella Reynis, búningameistari, festir skinnkragann á Ólaf Örn Oddsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa Rangárþings eystra, sem hér er í hlutverki Úlfs aurgoða Jörundarsonar.
Hluti Lögréttu árið 1096. Karlakórinn Öðlingar, ásamt bændum úr héraði, fylltu bekki Lögréttu, skömmu áður en Sæmundur flytur frumvarp til laga um Tíundarlög.
Sæmundur Sigfússon sigldi á unglingsárum til námsdvalar í útlöndum. Fyrsta utanlandsferðin er hlaðin spennu, tilhlökkun og óvissu um hvað framtíðin beri í skauti sér. Þórður Kalman í 10. bekk Hvolsskóla í hlutverki Sæmundar.
Hjónin Anna Kristín og Ólafur Rúnarsson ásamt dóttur sinni Helgu Dögg, en þau léku fyrstu ábúendur í Odda, hjónin Þorgeir Ásgrímsson og Þuríði Elífsdóttur sem áttu einmitt dótturina Helgu
Jón Loftsson var einn mesti valdamaður landsins á sinni tíð og nefndur ókrýndur konungur Íslands. Ívar Þormarsson í Smáratúni var voldugur á að líta í hlutverki höfðingjans.
Frægir gamlir karlar voru einu sinni litlir strákar sem vildu bara leika sér allan liðlangan daginn. Hér er Sæmundur 7 ára á leið með Loðmundi afa upp á Gammabrekku, því afi ætlar að kenna honum að þekkja stjörnurnar. „Þarf maður alltaf að vera að læra eitthvað?“ gæti Sæmi litli hafa hugsað, sem hér er túlkaður af Daníel Magnússyni.
Sigurgeir Guðmundsson fyrrum skólastjóri á Hellu fór létt með að tukta hann Kölska til. Hér er atriði sem sýnir Sæmund leika helgileik um heilagan Nikulás sem ávallt átti í höggi við einhverja púka. Trúlega er það uppruni þjóðsagnanna um Sæmund og Kölska.
Loðmundi afa finnst rétt að Sæmundur læri að þekkja forn, heiðin fræði áður en þau hverfa með honum í gröfina, því einhver þarf að halda því til haga hvernig lífið var í landinu í gamla daga. Hér er það engin annar en Lárus Ágúst Bragason, sagnfræðingur, kennari og leiðsögumaður um Njáluslóðir, sem bregður sér í hlutverk Loðmundar.
Það er rafmögnuð spenna á milli Ragnheiðar Þórhallsdóttur og Þorláks biskups þegar hann tekst á við Jón Loftsson um yfirráð kirkjustaða í Rangárþingi. Ragnheiður er frilla Jóns og systir biskups, sem vill bannfæra Jón fyrir vikið, því átök þeirra uppeldisbræðra eru fyrst og fremst persónuleg. Freyja Benónýsdóttir í hlutverki Ragnheiðar, Oddur Helgi Ólafsson er Þorlákur biskup Þórhallsson og Ívar Þormarsson er Jón Loftsson um fertugt.
Hildur Vala, Ingvar Máni og Björk í 10. bekk Hvolsskóla stilla sér einbeitt upp fyrir myndatöku.
Ágúst Sigurðsson, formaður Oddafélagsins, tók sig einstaklega vel út í hlutverki Gissurar Ísleifssonar, biskups.
Búningasafn Ellu Reynis er algjör fjársjóður. Náttúruleg efni og litir unnir samkvæmt litunartækni miðalda.
Brynjar Ágústsson er mikill ljósmyndameistari og listamaður í eftirvinnslu ljósmynda, en nú bíður hans það verkefni í vetur að fullvinna ljósmyndirnar fyrir Oddasýninguna, setja inn bakgrunna og vinna með samsetningu, lýsingu og áferð.
spot_img

MEST LESIÐ:

Hugmynd í þróun: Sæmundarstofa og Oddakirkja

Þegar um svo merkan og mikilvægan þjóðmenningarstað sem Odda er að ræða verður að vanda til verka og hugsa til framtíðar.

Sr. Geir og frú Dagný heiðruð í Reykholti

Sóknarnefnd og söfnuður Reykholtsprestakalls bauð þeim heiðurshjónum, sr. Geir Waage og frú Dagnýju Emilsdóttur, til hátíðardagskrár í Reykholti þar sem þeim var þakkað fyrir...