Fornleifaskóli unga fólksins

Fornleifaskóli unga fólksins er þróunarverkefni sem Oddafélagið gengst fyrir í samvinnu við grunnskólana í Rangárþingi og Fornleifastofnun Íslands. Meðan á fornleifauppgreftri stendur í Odda verður Fornleifaskólinn haldinn fyrir 7. bekk allra grunnskólanna ýmist að vori eða hausti.

Tilgangur Fornleifaskólans er tvíþættur: að kenna ungu fólki helstu vinnubrögð fornleifafræðinga, allt frá uppgreftri til skráningar gripa og skýrslugerðar, og: að tengja ungt fólk í Rangárþingi við menningarsögu héraðsins, við sögu Oddastaðar á miðöldum og þar með við sögu lands og þjóðar.

Leiðbeinendur Fornleifaskólans eru Kristborg Þórsdóttir og Lilja Björk Pálsdóttir, fornleifafræðingar, í samvinnu við skólastjóra grunnskólanna í Rangárþingi og umsjónarkennara 7. bekkjar hvers skóla.