HeimFréttir og greinarFréttir af Haustráðstefnu í Gunnarsholti

Fréttir af Haustráðstefnu í Gunnarsholti

Fróðleg ráðstefna og frábærir fyrirlestrar.

Föstudaginn 15. október 2021 var haldin hauststefna Oddarannsóknar á vegum Oddafélagsins í Gunnarsholti. Oddarannsóknin tekur til tímans 1100 til 1300 og hefur sl. tvö ár notið styrks frá sjóði sem er kenndur við RÍM en það stendur fyrir ritmenningu íslenskra miðalda. Verkefnið er þverfaglegt. Oddarannsóknin er á vegum Oddafélagsins en við sem stöndum einkum að henni gerðum grein fyrir framvindu rannsókna í ár á ráðstefnunni í Gunnarsholti.

Ágúst Sigurðsson, formaður Oddafélagsins, ávarpaði ráðstefnugesti og Helgi Þorláksson gerði síðan nokkra grein fyrir Oddarannsókninni.

Miguel Andrade hefur nýlega lokið meistararitgerð innan ramma Oddarannsóknar, Sæmundr fróði and his work, og gerði grein fyrir henni. Hann fjallar ma. um svokallaðan „skóla“ í Odda og hvað „fróður“ muni merkja og hvað Sæmundur hafi ritað. Miguel var staddur í heimalandi sínu, Portúgal, og flutti fyrirlestur sinn í gegnum Zoom.

Kristborg Þórsdóttir sagði frá fornleifarannsóknum sumarsins en mikill fjöldi mannngerðra hella virðist hafa verið í Odda, sumir fallnir. Þeir munu einhverjir hafa verið nýttir fyrir nautgripi og hey. Opnað hefur verið inn í helli sem stendur uppi að hluta og vekur spurningar og spennu. Þá grófu Kristborg og stöllur könnunarskurð þar sem ætlað hefur verið að verið hafi sel í landi Odda og enn sagði Kristborg frá könnun á svæðinu í kringum Bergvað og frá athugun á fornum leiðum tengdum Odda.

Egill Erlendsson sagði frá frjókornagreiningu þeirra Tómasar Arons Þórarinssonar. Fram kom ma. að landnám hefur orðið snemma í Odda, land var lagað að landbúnaði og merki um búpening birtast í umhverfisgögnum. Búskapur virðist hafa aukist í Odda um 1200 en ekki fundust nein merki kornræktar. Ræktun villilauks og vallhumals kann að hafa farið fram í Odda.

Eftir kaffi og meðlæti í boði Oddafélagsins flutti Richard North frá London fyrirlestur um lista með nöfnum enskra konunga sem hann telur að Sæmundur fróði hafi aflað sér og nýtt í fræðum sínum.

Sverrir Jakobsson dró fram í fyrirlestri samvinnu sunnlenskra höfðingja þar sem gætti svipaðra hugmynda, svo sem um hvernig reka beri staði, og talaði um „menningarelítu“ í því sambandi seint á 12. öld. Hann vildi setja störf Oddaverja í stærra samhengi, þeir áttu samvinnu við aðra áhrifamenn.

Haki Antonsson frá London talaði um samtímamann Sæmundar fróða, Markús Skeggjason lögsögumann, og lagði einkum út af kvæði hans Eiríksdrápu, um Eirík Sveinsson Danakonung, og talaði um hugmyndir sem þar kæmu fram og hefðu átt hljómgrunn hjá „elítu“ á Íslandi um 1100 þar sem Sæmundur var áhrifamaður.

Loks talaði Ásdís Egilsdóttir um Þorlák Þórhallsson,  ræddi menntun hans og menntun og kunnáttu höfundar Þorláks sögu. Hún benti á hvernig lýsingar í Þorlákssögu byggjast á hliðstæðum í ritum erlendra dýrlinga og dró fram dæmi um þetta.

Viðstaddir spurðu margs og urðu jafnan miklar umræður eftir tölur málshefjenda.

Ágúst Sigurðsson og Friðrik Erlingsson báru hita og þunga af ráðstefnuhaldinu á staðnum. Landgræðslan bauð upp á vistleg húsakynni til ráðstefnuhaldsins.

Ráðgert er að upptaka af Haustráðstefnunni verði sett inn á facebook síðu Oddafélagsins.

spot_img

MEST LESIÐ: