HeimFréttir og greinarOddi í aðalhlutverki „Um land allt“ Stöð 2 mánudagskvöld kl. 19.10

Oddi í aðalhlutverki „Um land allt“ Stöð 2 mánudagskvöld kl. 19.10

Kristján Már Unnarsson, fréttamaður, heimsótti Oddahátíð í sumar og tók viðtöl við sóknarprestinn, kirkjubændurna og Oddafélagsmenn.

Ungir bændur nytja fornfrægt höfuðból

Kristján Már Unnarsson skrifar 
Bændurnir á Sólvöllum, þau Illugi Breki Albertsson og Hanna Valdís Guðjónsdóttir, heyja túnin í Odda og annast bústofn prestsins. Oddi sést á milli þeirra og ber kirkjustaðinn í Eyjafjallajökul.
Bændurnir á Sólvöllum, þau Illugi Breki Albertsson og Hanna Valdís Guðjónsdóttir, heyja túnin í Odda og annast bústofn prestsins. Oddi sést á milli þeirra og ber kirkjustaðinn í Eyjafjallajökul.SIGURJÓN ÓLASON

 

Sá siður að presturinn í Odda á Rangárvöllum sinni jafnframt búskapnum á þessu fornfræga höfuðbóli heyrir sögunni til. „Ég er bara með einn hund,“ segir sóknarpresturinn Elína Hrund Kristjánsdóttir.

Í þættinum Um land allt á Stöð 2 kynnumst við Odda.

„Starf prestsins hefur breyst. Okkar sauðir eru aðrir sauðir heldur en þeir sem þarf að heyja fyrir,“ segir Elína, sem samið hefur við unga nágrannabændur sína á Sólvöllum um að heyja túnin og annast fjárstofninn sem fylgir Odda.

Elína Hrund Kristjánsdóttir, sóknarprestur í Odda, við útsýnisskífuna á Gammabrekku. Fjær sést til Vestmannaeyja.SIGURJÓN ÓLASON

 

Sólvellir eru vestan Odda en þau Hanna Valdís Guðjónsdóttir og Illugi Breki Albertsson, bæði Rangæingar, keyptu jörðina í fyrra af frænda hennar og gerðust bændur. Á Sólvöllum búa þau með sauðfé og hross auk þess að annast búskapinn í Odda.

„Við hugsum um átján kindur fyrir prestinn. Og heyjum þá í staðinn ofan í þær og okkar í leiðinni,“ segir Hanna Valdís.

-En hvernig heyskaparjörð er Oddi?

„Hún er bara mjög fín. Sprettur vel á henni,“ svarar Illugi Breki.

Frá Oddahátíð síðastliðið sumar.ARNAR HALLDÓRSSON

 

-En fylgir því öðruvísi tilfinning að slá og heyja túnin í Odda heldur en önnur tún?

„Nei, það er nú bara eins,“ svarar hann.

-Þú hugsar ekki um: Hér var Snorri Sturluson og hér var Sæmundur fróði?

„Nei, ég hef nú aldrei pælt í því. En góð pæling.“

Í þættinum Um land allt lýsa forystumenn Oddafélagsins áformum um endurreisn staðarins sem menningar- og fræðaseturs. Við förum á Oddahátíð, ræðum við fræðimenn og heyrum af rannsókn, þar sem grafist er fyrir um upphaf ritmenningar Íslendinga með Sæmundi fróða og veldi Oddaverja, sem reis hæst á tíma Jóns Loftssonar.

Þátturinn er á dagskrá Stöðvar 2 á mánudagskvöld klukkan 19:10. Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins:

HEIMILDvisir.is
spot_img

MEST LESIÐ: