HeimFréttir og greinarÁ sögustöðum. Ný bók eftir Helga Þorláksson.

Á sögustöðum. Ný bók eftir Helga Þorláksson.

Athyglisverð og stórfróðleg bók frá einum helsta fræðimanni íslenskrar sögu.

Í nýrri bók sinni, Á sögustöðum, ritar Helgi Þorláksson rækilega um Odda og ber staðinn saman við aðra merka sögustaði, einkum Reykholt.

Alls er fjallað um sex merka sögustaði í bókinni.  Í Oddakaflanum segir annars allmikið frá Sæmundi fróða að fornu og nýju, frá Jóni Loftssyni og sr. Matthíasi í Odda.

Bókin fjallar einkum um miðaldarætur staðanna og höfundur gerir rækilega grein fyrir gamalli söguskoðun úr sjálfstæðisbaráttunni sem ríki enn í skilningi á hinum fornu stöðum þótt hún sé villandi að mati hans.

Þá leitast hann við að svara spurningunni hvað sögustaður sé og af hverju sumir sögustaðir, eins og Oddi, teljist merkari en aðrir.

Hugmyndir okkar um sögustaði landsins mótuðust yfirleitt af þjóðernisrómantík á 19. og 20. öld. Þótt nærri 80 ár séu frá því að lýðveldið var stofnað eimir enn eftir af viðhorfum til manna, staða og málefna sem urðu til í sjálfstæðisbaráttunni, þar sem hið innlenda og þjóðlega þykir æskilegt en flest erlent og alþjóðlegt óæskilegt. Það er sannarlega kominn tími á gagngert endurmat. Þess er að vænta að afstaða margra muni breytast við lestur bókarinnar þar sem almenn menningarsaga fær að vega þyngra en bjöguð stjórnmálasaga.

Á sögustöðum fjallar um sex fræga og óumdeilda sögustaði í nýju ljósi: Bessastaði, Hóla, Odda, Reykholt, Skálholt og Þingvelli. Sagan er rakin og leitað svara við spurningunni: Hvað er eiginlega svona merkilegt við sögustaði? Stórfróðleg og áhugaverð bók! Útgefandi: Forlagið – Vaka Helgafell.

Helgi Þorláksson (f. 1945) nam sagnfræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan doktorsprófi árið 1992. Hann hefur stundað kennslu og rannsóknir jöfnum höndum og var prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands frá 1995 til 2015. Helgi hefur ritað fjölda greina og bóka um sagnfræðileg efni, fyrst og fremst um sögu Íslands fyrir 1700. Meðal rita hans eru Gamlar götur og goðavald – um fornar leiðir og völd Oddaverja í Rangárþingi (1989), Sjórán og siglingar. Ensk-íslensk samskipti 1580-1630 (1999), Frá kirkjuvaldi til ríkisvalds í Sögu Íslands VI (2003), Undir einveldi í Sögu Íslands VII (2004, bókarhluti) og um íslenska utanlandsverslun 900-1600 í bókinni Líftaug landsins (2017).

 

spot_img

MEST LESIÐ:

Fréttir af uppgreftri í Odda á mbl.is

Hellarnir mögulega eldri en gert var ráð fyrir

Rannsóknir í Odda halda áfram

Fornleifastofnun Íslands heldur uppgeftri áfram í Odda í sumar.