HeimFréttir og greinarFriðrik ráðinn verkefnastjóri Oddafélagsins

Friðrik ráðinn verkefnastjóri Oddafélagsins

Oddafélagið varð 30 ára 1. desember á síðasta ári og í tilefni af því var blásið til sóknar á ýmsum sviðum er varða kynningarmál félagsins og aukinn kraftur hefur verið settur í langtímaverkefni félagsins: Oddarannsóknina og framtíðar uppbyggingu menningar- og fræðaseturs í Odda í nafni Sæmundar Sigfússonar.

Stjórn Oddafélagsins ákvað því að ráða Friðrik Erlingsson, rithöfund, sem verkefnastjóra félagsins. Friðrik hefur setið í stjórn Oddafélagsins síðan árið 2017. Hann þekkir vel til verkefna félagsins, hefur skrifað greinar um sögu Oddastaðar og hélt á síðasta sumri vel sóttan fyrirlestur í Hlöðunni á Kvoslæk um „Fingraför Sæmundar fróða.“

Friðrik er menntaður grafískur hönnuður og teiknari og vann lengi við auglýsingar, hugmynda- og textagerð, framleiðslustjórnun, markaðs- og kynningarmál. Friðrik hefur skrifað skáldsögur fyrir börn og unglinga, m.a. „Benjamín dúfa“ og „Þrettán,“ sem kom út 2019. Friðrik er einnig handritshöfundur m.a. að teiknimyndunum „Litla lirfan ljóta,“ „Þór í heljargreipum“ og „Lói – þú flýgur aldrei einn.“ Friðrik hefur skrifað handrit að sjónvarpsþáttum og fengist við þýðingar auk þess að starfa sem tónlistarmaður. Hann gerði nýja íslenska þýðingu að söngleiknum Vesalingarnir fyrir Þjóðleikhúsið 2012 og skrifaði handrit og libretto að óperunni „Ragnheiður“ við tónlist Gunnars Þórðarsonar, tónskálds.

Friðrik hefur þegar hafið störf en fyrstu verkefni hans eru nýtt merki og ný heimasíða fyrir Oddafélagið, auk þess sem hönnun og undirbúningur er hafinn að stórri útisýningu í Odda um Sæmund fróða og sögu Odda, sem Friðrik vinnur með Brynjari Ágústssyni ljósmyndara. Þá mun Friðrik skipuleggja Oddahátíð, sem verður haldin um Þingmaríumessu, eða laugardaginn 3. júlí í sumar. Í undirbúningi er glæsileg hátíð þar sem Sinfóníuhljómsveit Suðurlands mun koma fram í fyrsta sinn á almennum tónleikum ásamt Karlakór Rangæinga, en þar verður m.a. frumflutt nýtt lag við kvæði séra Matthíasar Jochumsonar „Á Gammabrekku.“

spot_img

MEST LESIÐ:

Rannsóknir í Odda halda áfram

Fornleifastofnun Íslands heldur uppgeftri áfram í Odda í sumar.

Fréttir af uppgreftri í Odda á mbl.is

Hellarnir mögulega eldri en gert var ráð fyrir

Fleiri fréttir af uppgreftri í Odda

900 ára gömul hesta- og hundabein grafin upp í Odda