HeimFréttir og greinarFrétt Stöðvar 2 um uppbyggingu í Odda

Frétt Stöðvar 2 um uppbyggingu í Odda

Vilja sjá Odda rísa á ný sem menningar- og fræðasetur

Kristján Már Unnarsson skrifar 
Frá Oddahátíð um helgina. Gammabrekka, sú sem hæst stendur, sést lengst til vinstri.
Frá Oddahátíð um helgina. Gammabrekka, sú sem hæst stendur, sést lengst til vinstri.ARNAR HALLDÓRSSON

Áform um endurreisn Odda á Rangárvöllum með byggingu Sæmundarstofu, nýrrar kirkju og tónlistarhúss voru kynnt á Oddahátíð um helgina samtímis því sem Sinfónuhljómsveit Suðurlands kom fram á sínum fyrstu opinberu tónleikum.

Áætlað er að hátt í þrjúhundruð manns hafi sótt Oddahátíð á laugardag en þar var boðið upp á guðsþjónustu, veitingar, ræðuhöld og tónleika. Þótti við hæfi að þessi merki sögustaður skyldi vera valinn sem vettvangur fyrir fyrstu opinberu tónleika nýjustu sinfóníuhljómsveitar landsmanna, en myndir frá hátíðinni voru sýndar í fréttum Stöðvar 2.

Fjölmennt var í Odda á Rangárvöllum á laugardag. Hér bjuggu foringjar Oddaverja, helstu valdaættar Sturlungaaldar.ARNAR HALLDÓRSSON

Hápunkturinn var frumflutningur Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands, með Karlakór Rangæinga, Kvennakórnum Ljósbrá, félögum úr Kammerkór Rangæinga og Eyjólfi Eyjólfssyni tenórsöngvara, á lagi Gunnars Þórðarsonar við kvæði Matthíasar Jochumssonar, Á Gammabrekku. Matthías samdi kvæðið um Odda en hann var þar prestur um sex ára skeið.

Afsteypa af Sæmundi á selnum, styttu Ásmundar Sveinssonar, er í Odda. Hún vísar til þjóðsögunnar um það hvernig Sæmundur fróði átti að hafa, með aðstoð Kölska, komist til Íslands frá námi í Frakklandi og hreppt Odda.ARNAR HALLDÓRSSON

„Þetta eru fyrstu svona opinberu tónleikar, segjum við. Síðastliðið haust spiluðum við á grunnskólatónleikum, fórum í grunnskóla,“ segir Guðmundur Óli Gunnarsson, stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands.

„En við erum hérna með átján hljóðfæraleikara í dag. Og stefnum á tónleika á næsta vetri með talsvert fleiri hljóðfæraleikurum.“

Guðmundur Óli Gunnarsson, stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands.ARNAR HALLDÓRSSON

Þess var minnst að þrjátíu ár eru frá því félag um endurreisn Odda var stofnað. Helsti frumkvöðullinn og fyrsti formaður Oddafélagsins, Þór Jakobsson, segir að takmarkið hafi verið að kynna gullöld Oddaverja og sögu staðarins síðan.

Félagið beitir sér nú fyrir því að þar rísi menningar- og fræðasetur í nafni Sæmundar fróða sem og stór kirkja sem jafnframt þjóni sem tónlistarhús héraðsins.

Þór Jakobsson, fyrsti formaður Oddafélagsins.ARNAR HALLDÓRSSON

„Við lítum svo á að slík stofnun eigi hvergi betur heima en í Odda. Vegna sögu staðarins annarsvegar og hinsvegar vegna miðlægrar staðsetningar hér í héraðinu,“ sagði Ágúst Sigurðsson, núverandi formaður Oddafélagsins, í hátíðarræðu.

„Og við hlökkum mjög til þess, – þeirrar framtíðar,“ segir Guðmundur Óli, stjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

spot_img

MEST LESIÐ:

Sr. Geir og frú Dagný heiðruð í Reykholti

Sóknarnefnd og söfnuður Reykholtsprestakalls bauð þeim heiðurshjónum, sr. Geir Waage og frú Dagnýju Emilsdóttur, til hátíðardagskrár í Reykholti þar sem þeim var þakkað fyrir...

Rannsóknir í Odda halda áfram

Fornleifastofnun Íslands heldur uppgeftri áfram í Odda í sumar.