HeimFréttir og greinarVel sótt Oddastefna í Háskóla Íslands

Vel sótt Oddastefna í Háskóla Íslands

Hauststefna Oddafélagsins í Lögbergi í Háskóla Íslands var einkar vel sótt af fræði- og vísindamönnum og ekki síður leikmönnum, sem sumir hverjir gerðu sér ferð úr Rangárþingi til að fylgjast með framgangi Oddarannsóknarinnar.

Með hverri Oddastefnu stækkar og dýpkar myndin af Odda og Oddaverjum á miðöldum. Hvert erindi fræðimanna sem starfa við Oddarannsóknina er eitt púsl sem bætist við heildarmyndina, og þau voru mörg og merk púslin sem bættust við á Hauststefnunni, föstudaginn 22. september, þegar Oddastefna var haldin í stofu 101 í Lögbergi í Háskóla Íslands.

Ágúst Sigurðsson, formaður Oddafélagsins bauð gesti velkomna, en Friðrik Erlingsson verkefnastjóri félagsins, tók við fundarstjórn og fór yfir helstu verkefni Oddafélagsins á árinu.

 

Dr. Helgi Þorláksson, sem leiðir bókmennta- og sagnfræðihluta Oddarannsóknarinnar, fór yfir það helsta sem fræðimenn hafa unnið að á þessu ári, og ræddi um að nú væru aðeins tvö ár eftir af starfstíma RÍM sjóðsins, sem m.a. hefur stutt við Oddarannsóknina. Helgi sagði frá útgáfu á hluta af rannsóknargreinum á ensku, en ræddi einnig um lokamarkmiðið, sem er að gefa niðurstöður rannsóknarinnar út fyrir íslenskan almenning.

Sverrir Jakobsson ræddi um Odda sem kirkju- og valdamiðstöð og sagði frá meistararitgerðum sem unnar hafa verið út frá þeim forsendum, og Ármann Jakobsson ræddi um bókmenntaþátt Oddarannsóknarinnar, m.a. talaði hann sérstaklega um hvernig vissir Oddaverjar hefðu orðið menningar stórmenni, sérstaklega eftir dauða sinn, þegar sögur og frásagnir af þeim vaxa að efni og fjölbreytni og þeim jafnvel fjölgar og nefndi Sæmund fróða og Jón Loftsson, sonarson hans sem dæmi.

Kristborg Þórsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands, sagði frá uppgreftri sumarsins í Odda og óvæntum fundi yngra húss ofan á eldra húsi, sem byggt var innan í hruninni hellistóft, en þetta breytti áherslum uppgraftarins í sumar. Það bíður næsta árs að fara niður fyrir yngra og eldra hús og síðan niður í sjálft hellisgólfið. Kristborg greindi einnig frá rannsóknum á breytingum á árfarvegi Þverár í gegnum aldirnar og kom með óvænta og snjalla tilgátu, þess efnis að fornu hreppamörkin séu bestu vísbendingar um hvernig farvegur Þverár hefur verið um 1100.

Eftir fjörugt kaffihlé var komið að Auði G. Magnúsdóttur, dósent í sagnfræði miðalda við Gautaborgarháskóla, sem fór yfir sögu Sæmundar Jónssonar og varpaði athyglisverðu ljósi á sjálfsmynd hans sem konungsborins erfingja föður síns, sem fékk því hvorki staðfestu né gekk í hjónaband meðan Jón Loftsson var á lífi, líkt og erfðaprinsar sem taka ekki við krúnunni fyrr en konungurinn er látinn. Auður fór yfir frillumál Jóns og varpaði einkar athyglisverðu ljósi á ástæður þess að Sæmundur hafnaði því að sigla til Orkneyja til að ganga að eiga Langalíf Haraldsdóttur Maddaðarsonar Orkneyjajarls. Tilgátur Auðar voru afar sannfærandi og breikkuðu mjög þá einföldu mynd sem við höfum haft til þessa af kvennamálum Sæmundar Jónssonar og orsökinni fyrir hnignun valda Oddaverja á hans dögum og ekki síst eftir hans dag.

Christopher Callow, dósent í sagnfræði við háskólann í Birmingham, fjallaði um kirkjugoða og staði, og dró upp mynd af þessu séríslenska fyrirbrigði, en sýndi um leið fram á að sambærileg dæmi væri að finna m.a. í Englandi, þ.e. kirkjur í einkaeign auðugra höfðingja. Christopher tók dæmi úr íslenskum máldögum um stofnun staða og færði rök fyrir því að sérstaða staða umfram aðrar bændakirkjur hefði ekki síst falist í aukinni vernd þeirra sem þangað leituðu.

Síðasti fyrirlesari Hauststefnunnar var Gunnar Ágúst Harðarson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, sem fjallaði um menntir í Odda á 14. öld, en yfirleitt hefur verið talið að menntir og lærdómur í Odda hafi meira eða minna fallið niður eftir að Oddastaður fór alfarið undir stjórn kirkjunnar. Gunnar sýndi fram á að svo hefði ekki verið og tilgreindi m.a. að flestir prestar sem biskup hefði sett yfir staðinn hefðu verið af ætt Oddaverja, m.a. Grímur Hólmsteinsson, sem ritaði t.d. Jóns sögu babtista. Gunnar tilgreindi þau miklu heimildarrit sem Grímur hefði þurft að hafa við hendinni við ritun bókarinnar, en þau hafa hugsanlega verið hluti af bókakosti Oddastaðar, en síðar eru þessi rit nefnd í bókaskrá Skálholts.

spot_img

MEST LESIÐ: