HeimFréttir og greinarRáðherra heimsækir Odda

Ráðherra heimsækir Odda

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, kynnti sér Oddarannsóknina og framtíðaráform Oddafélagsins um uppbyggingu menningar- og fræðaseturs í Odda.

Góðum gestum var fagnað í Odda þann 5. maí s.l. þegar Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti Odda og hitti að máli Ágúst Sigurðsson formann Oddafélagsins, Helga Þorláksson prófessor, stjórnarmann í Oddafélaginu og verkefnisstjóra Oddarannsóknarinnar, og Kristborgu Þórsdóttur, fornleifafræðing og stjórnanda fornleifarannsókna í Odda.

Helgi Þorláksson, Ágúst Sigurðsson, Lilja Alfreðsdóttir og Guðni Ágústsson við fornleifauppgröftinn.

Ráðherra fékk leiðsögn Kristborgar um fornleifauppgröftinn og leit einnig inn á vinnustofu Oddafélagsins í Ekru og skoðaði hið merka safn fræðibóka og tímarita sem þar er nú að finna.

Á sameiginlegum fundi í
Oddakirkju kynnti Helgi Þorláksson bókmennta- og sagnfræðirannsókn Oddaverkefnisins og Kristborg Þórsdóttir fornleifarrannsókn verkefnisins. Ágúst Sigurðsson hélt kynningu á  Sæmundarstofu-verkefninu, þar sem hugmynd og tillaga Sigríðar Sigþórsdóttur, arkítekts hjá Basalt arkítektum var sýnd. Í framhaldinu urðu afar gagnlegar umræður um þýðingu og mögulega útfærslu þess mikilvæga verkefnis til að efla menningar- og sögustaðinn Odda til framtíðar.

Kristborg Þórsdóttir kynnir ráðherra framgang fornleifauppgraftar og rannsókna í Odda.

Oddafélagar og heimamenn voru afar ánægðir með heimsóknina og þakklátir ráðherra fyrir að gefa sér góðan tíma til að kynna sér þá starfsemi sem þegar er í gangi og þau framtíðaráform sem liggja fyrir.

Í fylgdarliði ráðherra voru þau Guðni Ágústsson fyrrv. ráðherra, Jóhanna Hreiðarsdóttir aðstoðarmaður ráðherra og Jón Þorvarður Sigurgeirsson efnahagsráðgjafi. Til að undirstrika samstöðu Rangárþings um uppbyggingu í Odda komu þeir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri í Rangárþingi ytra og Valtýr Valtýsson sveitarstjóri í Ásahreppi til að taka á móti ráðherra.

Helgi Þorláksson afhenti ráðherra bók sína „Á sögustöðum“ sem kom út á síðasta ári.

 

spot_img

MEST LESIÐ:

Vel sótt Oddastefna í Háskóla Íslands

Með hverri Oddastefnu stækkar og dýpkar myndin af Odda og Oddaverjum á miðöldum.

Rannsóknir í Odda halda áfram

Fornleifastofnun Íslands heldur uppgreftri áfram í Odda í sumar.