„Skall þar hurð nærri hælum,“ er máltæki rakið til Sæmundur fróða þegar hann yfirgaf Svartaskóla í Frakklandi og járnhurðin skall svo fast aftur á hæla hans að hælbeinin særðust.
Í þættinum Um land allt á Stöð 2 er því velt upp hvaða hlutverki Oddi og Sæmundur gegndu í því að Íslendingar hófu sagnaritun. Á Oddahátíð í sumar fjallaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um áhrif Sæmundar og hversvegna farið var að tala um hann sem galdramann.
Sæmundur fróði Sigfússon var maður af holdi og blóði, prestur í Odda á Rangárvöllum, talinn fæddur árið 1056 og látinn árið 1133. En hann var einnig þjóðsagnapersóna, sem birtist í styttunni af Sæmundi á selnum framan við Háskóla Íslands. Hún lýsir sögunni af því þegar Sæmundur samdi við Kölska um flytja sig til Íslands, en Kölski brá sér í selslíki og synti með Sæmund á bakinu yfir hafið.
Það er engin tilviljun að Háskóli Íslands hampi Sæmundi fróða.
„Sæmundur og aðrir af hans kynslóð eru fyrstu mennirnir sem fara út að læra og koma hingað heim með erlenda lærdóma og miðla þeim inn í okkar samfélag og umbreyta því,“ segir Friðrik Erlingsson, verkefnastjóri Oddafélagsins.
En Sæmundur er einnig talinn einn helsti upphafsmaður sagnaritunar Íslendinga.
„Það er vaxandi áhugi á Sæmundi og við höldum að hann hafi verið mjög mikilvægur maður varðandi upphaf menningar,“ segir Þór Jakobsson, fyrsti formaður Oddafélagsins.
„Þetta er skömmu eftir kristnitöku, við lærum að lesa og skrifa. Fólk byrjar að skrifa niður sögurnar sem það hefur, um héruðin, kvæðin, bæði frá Íslandi og Noregi. Allt þetta byrjar hér, ég hef trú á því,“ segir Þór.
„Og kem ég þá aftur af því af hverju við tölum um Sæmund sem galdramann. Ég velti því fyrir mér hvort það tengist hinni róttæku breytingu á tjáningarformi sem hann innleiddi á Íslandi. Hann skrifar bækur og notar stafrófið,“ sagði Katrín.
„Nýir miðlar eru nefnilega ekki einkamál okkar sem lifum núna á tímum facebook, twitter, instagram, tik-tok og öllu hinu. Sæmundur var einn af upphafsmönnum þess að nýta nýja miðla til að miðla fróðleik og upplýsingum á elleftu öld.
Við getum vel því fyrir okkur hvar Sæmundur fróði væri í dag, hvort hann myndi fremja galdra sína á tístinu í dag og vera þar frumlegri og skemmtilegri en aðrir á þeim miðli. Sæti bara á kaffihúsi í Reykjavík, þyrfti engin handrit, hefði bara síma og 4G,“ sagði Katrín.
Þátturinn um Odda á Rangárvöllum er endursýndur á Stöð 2 í dag, sunnudag, klukkan 16:20.
Hér má sjá níu mínútna langt myndskeið úr þættinum: