HeimFréttir og greinarFréttapistill desember 2019

Fréttapistill desember 2019

Kæri Oddafélagi,

Liðið ár hefur verið tími undirbúnings hjá okkur í Oddafélaginu en framkvæmdir og uppákomur hafa heldur verið með rólegra móti. Góðir hlutir gerast hægt stendur einhversstaðar og þolinmæði þrautir vinnur. Það er þó engu að síður þannig að margt hefur þokast í rétta átt þetta árið og vonir standa svo sannarlega til að frekari tíðinda verði að vænta af starfi Oddafélagins á því ári sem nú gengur í garð.

Oddarannsóknin

Það voru vissulega vonbrigði að umsókn Fornleifastofnunar um rannsóknarstyrk til Oddarannsókna 2018 og aftur 2019 hlaut ekki brautargengi hjá stjórn Minjasjóðs. Engu að síður ákvað Oddafélagið í samráði við Fornleifastofnun að hefjast handa við fyrsta hluta verkefnaáætlunarinnar í byrjun júní 2018 með hreint ótrúlegum árangri eins og fram hefur komið. En áfram þarf að halda og nauðsynlegt er að fá frekari fjármuni til verksins þannig að taka megi þráðinn upp að nýju og ljúka þeirri áætlun sem liggur fyrir.

Þau ánægjulegu tíðindi urðu nú síðsumars 2019 að ríkisstjórn Íslands ákvað að í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins yrði sett á laggirnar átaksverkefni um ritmenningu miðalda og ákvað ríkisstjórnin að leggja þessu verkefni til 35 mkr á ári næstu 5 árin eða alls 175 mkr. Þetta er samstarfsverkefni forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Snorrastofu og snýr að þverfaglegum rannsóknum á ritmenningu íslenskra miðalda. Með átaksverkefninu leggja samstarfsaðilar áherslu á að efla rannsóknir sem tengjast þeim stöðum á Íslandi þar sem ritmenning blómstraði á miðöldum og þar er Oddi á Rangárvöllum svo sannarlega í fremsta flokki auk þess sem rannsóknir í Odda eru á algjörum byrjunarreit og þörfin því geysileg. Það er því ljóst að nú hljóta að breytast allar forsendur til fjármögnunar Oddarannsókna en fyrsta úthlutun mun fara fram fljótlega á árinu 2020.

Fbr2019 b

Fornleifaskóli unga fólksins

Vorið 2019 var fornleifaskóli unga fólksins haldinn öðru sinni í Odda en um er að ræða samstarf Oddarannsóknarinnar og allra grunnskóla í Rangárvallasýslu. Þetta vorið komu nemendur með kennurum sínum úr Grunnskólanum á Hvolsvelli og Laugalandi en áður hafði sjöundi bekkur Helluskóla riðið á vaðið. Áfram verður verkefnið þróað stig af stigi, lært af reynslunni og passað upp á að saman fari mikilvæg og áhugaverð fræðsla og góð samvera. Það voru þær Kristborg Þórsdóttir, Hulda Björk Guðmundsdóttir og Lilja Björk Pálsdóttir frá Fornleifastofnun sem héldu utan um kennsluna í góðri samvinnu við umsjónarkennara skólanna.

„Fróðasetur í Odda“

Í haust og vetur er unnið að endurbótum á húsinu í Ekru, skipt um alla glugga og hurðir, húsið klætt að utan með einangrun og standandi timburklæðningu, rafhitun endurnýjuð, skipt um innréttingar í eldhúsi, málað, lagað umhverfis húsið og útbúið plan ofl. Þá er áætlað að skipta um þakjárn næsta sumar og smíða pall við húsið. Þá verður lagfærð útiskemma sem ætlunin er að nýta sem grófa geymslu fyrir starfsemina og fornleifarannsóknirnar. Þá þarf að reisa varanlegra skjól fyrir hellismunnann sem grafinn var upp síðasta sumar til að verja betur minjarnar. Allt er þetta framkvæmt með ítrustu hagkvæmni að leiðarljósi en fjárstyrkur frá Héraðsnefnd Rangæinga er lykillinn að þessum framkvæmdum Oddafélagsins í samráði við sveitarfélagið Rangárþing ytra. Með þessu skapast hin þokkalegasta aðstaða og bækistöð fyrir hin brýnu verkefni sem bíða okkar í Odda á næstu árum.

Önnur mikilvæg mál

Ekki var haldin Oddahátíð þetta sumarið en sú fyrsta var haldin þann 1. júli 2018. Til að byrja með er áætlað að veglegar Oddahátíðir líkt og á síðasta ári verði haldnar annað hvert ár og er stefnan að halda næstu Oddahátíð sumarið 2020. Nú hyllir undir að ný samgönguleið verði tilbúin sem liggur hjá garði í Odda og tengir saman sveitir. Framkvæmdum við svokallaða Oddabrú lauk nú rétt fyrir jól og verður það að teljast mikilvægur áfangi til að auka öryggi íbúa og bæta samgöngur í héraði. Risin er falleg og vel smíðuð brú og nú er næsta skref að sæta færis og flytja vatnsfarveginn undir hina nýju brú og ljúka við vegtengingar beggja megin. Ef vel viðrar ætti þessu að ljúka á næstu vikum og þá er þess ekki langt að bíða að hægt verði að hleypa umferð á þessa nýju leið. Það er sveitarfélagið Rangárþing ytra sem stendur að þessum vegabótum í góðu samstarfi við Vegagerðina. Mikilvæg hliðaráhrif þessara góðu framkvæmda er að höfuðbólið Oddi á Rangárvöllum kemst nú í alfaraleið á nýjan leik – Þjóðleiðin um Odda verður á vissan hátt endurvakin.

Oddafélagið stefnir að líflegri starfsemi árið 2020 þar sem Oddarannsóknir halda áfram, fornleifaskólinn heldur sínu striki og aðstaðan í Ekru tekur á sig mynd. Þá er stefnt að því að halda veglega Oddahátíð næsta sumar í Odda og kannski er þá komin hefð á að slík hátíð sé annað hvert ár hið minnsta.

Að lokum vil ég þakka öllum sem lagt hafa verkefnum Oddafélagsins lið á árinu og vonast til að sjá ykkur sem allra flest á Oddahátíð í sumar.

Bestu kveðjur og nýarsóskir

Ágúst Sigurðsson

 

 

 

spot_img

MEST LESIÐ: