HeimFréttir og greinarFréttapistill 31. desember 2017

Fréttapistill 31. desember 2017

Kæri Oddafélagi,

Það stefnir í spennandi starf á vegum Oddafélagsins á næstu misserum og margt á prjónunum. Skemmst er að minnast fjörlegrar Oddastefnu síðasta vor þar sem greint var frá nýrri stefnumörkun í kjölfar þess að félagsmenn fóru á mikið hugarflug í þeim tilgangi að greina mikilvægustu viðfangsefni félagsins til framtíðar litið. Stærsta verkefnið hér eftir sem hingað til er að „Gera Odda að miðstöð menningar og fræða á nýjan leik“ og „vekja úr mold hina sögustóru fold“.

Vigdís er verndari félagsins

p2Þau tíðindu urðu á Sæmundarstund sem haldin var við Háskóla Íslands í  mars á þessu ári að tilkynnt var um að Vigdís Finnbogadóttir fyrrv. forseti er verndari Oddafélagsins. Er það geysilegur heiður fyrir félagið og ómetanlegt að eiga stuðning Vigdísar og velvilja að í baráttunni fyrir eflingu Odda á Rangárvöllum. Erum við félagsmenn Vigdísi ákaflega þakklát fyrir þennan mikla stuðning.

Oddarannsóknin kemst á skrið

Í byrjun júní samdi Oddafélagið við Fornleifastofnun Íslands um að vinna áætlun til næstu ára um fornleifarannsóknir í Odda á Rangárvöllum. Kristborg Þórsdóttir fornleifafræðingur var fengin til að stýra þessu verki sem hún skilað af sér með sóma á haustdögum. Áætlunin liggur fyrir í formi skýrslu þar sem verkefni eru skilgreind og tímasett en áætlunin tekur til áranna 2018-2020. Meðal verkefna sem ráðast á í er uppgröftur hinna frægu Nautahella Sæmundar, kortlagning gjóskulaga auk  margháttaðra rannsókna á Oddastað með hinum fjölbreyttu aðferðum fornleifafræðinnar, kjarnaborun, ómsjármælingum, segul- og viðnámsmælingum. Þá verður mikil áhersla lögð á fræðslu- og kynningu samhliða rannsóknum og þannig er áætlað að koma á fót næsta sumar s.k. Fornleifaskóla unga fólksins í Odda. Þess má geta að Oddafélagið hlaut fjárstyrki frá Samtökum Sunnlenskra Sveitarfélaga og Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til þess að vinna áætlunina sem gáfu verkefninu byr undir báða vængi auk þess sem Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkti fornleifaskólaverkefnið afar myndarlega nú á haustmánuðum. Þá urðu þau tímamót nú í desember að Héraðsnefnd Rangæinga gerðist fjárhagslegur bakhjarl í verkefnum Oddafélagsins. Allt er þetta liður í að tryggja verkefnum eins og Oddarannsókninni brautargengi – næsta vor verður hafist handa.

p4p5

 p3

Upplýsingar um Oddafélagið – þurfum fleiri öfluga liðsmenn

goðasteinn2017Minnt er á heimasíðu okkar www.oddafelagid.net og einnig Fésbókarsíðu félagsins þar sem safnað er því sem tengist félaginu og fréttir af starfinu eru birtar. Þá skal minnt á nýútkomið héraðsrit okkar Rangæinga – Goðastein – en þar er m.a. afar áhugaverð hvatningar- og fróðleiksgrein eftir Friðrik Erlingsson rithöfund og stjórnarmann í Oddafélaginu sem hann nefnir „Endurreisn Oddastaðar“ og forsíðan er af Sæmundi á selnum – hvað annað. Goðastein má eignast með því að senda skilaboð á   gudmundur@fannberg.is.

Hvet ykkur svo til að segja vinum og kunningjum frá starfi Oddafélagsins – það vantar fleiri öfluga liðsmenn. Með því að leggja rækt við Oddastað erum við að halda á lofti sögu okkar – hlúa að vöggu menningar og einu af okkar þekktasta höfuðbóli.

Gleðilegt nýtt ár kæru Oddafélagar

Ágúst Sigurðsson

spot_img

MEST LESIÐ: