HeimFréttir og greinarFornleifarannsókn hafin í Odda að nýju

Fornleifarannsókn hafin í Odda að nýju

Frétt Morgunblaðsins og viðtal við Kristborgu Þórsdóttur, fornleifafræðing.

Spennandi gröftur farinn af stað

• Fornleifarannsókn við Odda í sumar

Oddarannsókn Unnið er að því að grafa niður að botni hrunins hellis. Ljósmynd/Fornleifastofnun

Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is

Fornleifahluti Oddarannsóknarinnar svokölluðu, þverfaglegri rannsókn á Odda í Rangárvallasýslu sem miðstöð valda, kirkju og lærdóms, hófst í síðustu viku. Í sumar stendur til að kanna forna manngerða hella sem þar er að finna og segir Kristborg Þórsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands og stjórnandi fornleifahluta rannsóknarinnar, að nú þegar séu spennandi niðurstöður farnar að láta á sér kræla.

Hún segir rannsóknina vera tímamótarannsókn. „Þetta er allt mjög áhugavert og spennandi enda mjög fornar minjar. Þessir hellar hafa sennilega verið í notkun frá miðri 10. öld og fram til um aldamótin 1100.“

Annars vegar er verið að rannsaka helli sem enn stendur og hins vegar annan stærri sem er hruninn en var tengdur þeim fyrrnefnda. „Núna erum við að vinna í því að grafa okkur niður í gegnum hrunið til þess að komast inn í innri endann á uppistandandi hellinum og reyna að sjá sambandið þarna á milli.

Það er að reynast umfangsmeira verkefni en við bjuggumst við. Við eigum eftir að grafa enn dýpra til þess að komast niður á yfirborð í stóra hellinum,“ segir Kristborg.

„Í þessu hruni höfum við verið að finna dýrabein sem við erum aðeins að klóra okkur í höfðinu yfir. Þau eru á svolítið skrítnum stað í þessu hruni. Þetta er stór gripur, líklega hestur frekar en naut. Þau eru ekki inni í hellunum sjálfum svo það er erfitt að segja hvernig beinin hafa komist þangað. Svo höfum við fundið hauskúpu af hundi.“

Hún segir langlíklegast að hellarnir hafi gegnt hlutverki einhvers konar útihúss. „En það er það sem er svo spennandi, að komast að því hvernig hellarnir hafi verið notaðir og hvort fólk hafi hafist við í þeim líka. Stærðin á þessum hellum er yfirgengileg“

Verkefnið segir hún bæði krefjandi og umfangsmikið. „Það er búið að grafa og grafa en við erum enn ekki komin niður á botn. Þetta er snúið vegna þess að við erum komin með djúpa holu og þurfum að tryggja vinnuaðstæður hérna.“

Undanfarna daga hafa tveir fornleifafræðingar verið við störf ásamt einum til tveimur starfsmönnum á vinnuvélum. „Við verðum fleiri þegar við komumst í að grafa minjarnar á botni hellisins upp.“

spot_img

MEST LESIÐ:

Rannsóknir í Odda halda áfram

Fornleifastofnun Íslands heldur uppgeftri áfram í Odda í sumar.