HeimFréttir og greinarFréttapistill 31. desember 2017

Fréttapistill 31. desember 2017

Kæri Oddafélagi,

Það stefnir í spennandi starf á vegum Oddafélagsins á næstu misserum og margt á prjónunum. Skemmst er að minnast fjörlegrar Oddastefnu síðasta vor þar sem greint var frá nýrri stefnumörkun í kjölfar þess að félagsmenn fóru á mikið hugarflug í þeim tilgangi að greina mikilvægustu viðfangsefni félagsins til framtíðar litið. Stærsta verkefnið hér eftir sem hingað til er að „Gera Odda að miðstöð menningar og fræða á nýjan leik“ og „vekja úr mold hina sögustóru fold“.

Vigdís er verndari félagsins

p2Þau tíðindu urðu á Sæmundarstund sem haldin var við Háskóla Íslands í  mars á þessu ári að tilkynnt var um að Vigdís Finnbogadóttir fyrrv. forseti er verndari Oddafélagsins. Er það geysilegur heiður fyrir félagið og ómetanlegt að eiga stuðning Vigdísar og velvilja að í baráttunni fyrir eflingu Odda á Rangárvöllum. Erum við félagsmenn Vigdísi ákaflega þakklát fyrir þennan mikla stuðning.

Oddarannsóknin kemst á skrið

Í byrjun júní samdi Oddafélagið við Fornleifastofnun Íslands um að vinna áætlun til næstu ára um fornleifarannsóknir í Odda á Rangárvöllum. Kristborg Þórsdóttir fornleifafræðingur var fengin til að stýra þessu verki sem hún skilað af sér með sóma á haustdögum. Áætlunin liggur fyrir í formi skýrslu þar sem verkefni eru skilgreind og tímasett en áætlunin tekur til áranna 2018-2020. Meðal verkefna sem ráðast á í er uppgröftur hinna frægu Nautahella Sæmundar, kortlagning gjóskulaga auk  margháttaðra rannsókna á Oddastað með hinum fjölbreyttu aðferðum fornleifafræðinnar, kjarnaborun, ómsjármælingum, segul- og viðnámsmælingum. Þá verður mikil áhersla lögð á fræðslu- og kynningu samhliða rannsóknum og þannig er áætlað að koma á fót næsta sumar s.k. Fornleifaskóla unga fólksins í Odda. Þess má geta að Oddafélagið hlaut fjárstyrki frá Samtökum Sunnlenskra Sveitarfélaga og Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til þess að vinna áætlunina sem gáfu verkefninu byr undir báða vængi auk þess sem Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkti fornleifaskólaverkefnið afar myndarlega nú á haustmánuðum. Þá urðu þau tímamót nú í desember að Héraðsnefnd Rangæinga gerðist fjárhagslegur bakhjarl í verkefnum Oddafélagsins. Allt er þetta liður í að tryggja verkefnum eins og Oddarannsókninni brautargengi – næsta vor verður hafist handa.

p4p5

 p3

Upplýsingar um Oddafélagið – þurfum fleiri öfluga liðsmenn

goðasteinn2017Minnt er á heimasíðu okkar www.oddafelagid.net og einnig Fésbókarsíðu félagsins þar sem safnað er því sem tengist félaginu og fréttir af starfinu eru birtar. Þá skal minnt á nýútkomið héraðsrit okkar Rangæinga – Goðastein – en þar er m.a. afar áhugaverð hvatningar- og fróðleiksgrein eftir Friðrik Erlingsson rithöfund og stjórnarmann í Oddafélaginu sem hann nefnir „Endurreisn Oddastaðar“ og forsíðan er af Sæmundi á selnum – hvað annað. Goðastein má eignast með því að senda skilaboð á   gudmundur@fannberg.is.

Hvet ykkur svo til að segja vinum og kunningjum frá starfi Oddafélagsins – það vantar fleiri öfluga liðsmenn. Með því að leggja rækt við Oddastað erum við að halda á lofti sögu okkar – hlúa að vöggu menningar og einu af okkar þekktasta höfuðbóli.

Gleðilegt nýtt ár kæru Oddafélagar

Ágúst Sigurðsson

spot_img

MEST LESIÐ:

Oddafélagið 25 ára

Félagið var stofnað árið 1990 og varð 25 ára þann 1. desember 2015. Formaður þess frá upphafi hefur verið dr. Þór Jakobsson, veðurfræðingur.

Oddastefna 2016

Oddastefna var haldin með stæl á Hótel Stracta...........

Listsýning Oddanema

Á Oddastefnu 2016 sagði Þórhalla Sigmundsdóttir kennari við Grunnskólann á Hellu frá verkefni sem grunnskólabörn unnu í vetur um sögu Sæmundar fróða.

Hugarflug á Oddastefnu 2016

Á Oddastefnu 2016 sem haldin var á Hótel Stracta sl. vor var þátttakendum skipt upp í vinnuhópa með það verkefni að ræða og brjóta heilann um framtíð Oddafélagsins og hvar bæri að leggja helstu áherslur.