HeimFréttir og greinarHugmynd í þróun: Sæmundarstofa og Oddakirkja

Hugmynd í þróun: Sæmundarstofa og Oddakirkja

Með byggingu Sæmundarstofu og Oddakirkju er okkar kynslóð að leggja hornstein að öflugri menningarsókn Rangárþings inn í framtíðina, líkt og Sæmundur og niðjar þeirra Guðrúnar Kolbeinsdóttur gerðu svo vel á sinni tíð í Odda, að 900 árum síðar njótum við enn ávaxtanna af þeirra starfi.

Oddafélagið var stofnað árið 1990 með það að höfuðmarkmiði að standa fyrir uppbyggingu og endurreisn menningar- og fræðaseturs í Odda í nafni Sæmundar fróða Sigfússonar. Í gegnum árin hefur verið unnið að þessu verkefni með ýmsum hætti. Lengst af hefur áherslan verið á að breiða út fagnaðarerindið um sögu Odda og menntun og menningu Oddaverja t.d með því að halda Oddastefnur bæði á vori og hausti, þar sem fræðimenn í ýmsum greinum segja frá rannsóknum sínum sem lúta að Odda á miðöldum.

Í tilefni af því að 75 ár voru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi ákvað ríkisstjórnin að hleypa formlega af stokkunum verkefninu „Ritmenning íslenskra miðalda,“ þann 20. ágúst 2020. Þetta er verkefni til fimm ára með það að meginmarkmiði að efla rannsóknir á þeim stöðum landsins þar sem ritmenning blómstraði á miðöldum. Oddarannsóknin hefur notið styrks úr RÍM sjóðnum sem lúta m.a. að fornleifafræði, sagnfræði, textafræði og bókmenntafræði.

Frá því að Oddarannsóknin fór af stað hefur stjórn Oddafélagsins einbeitt sér að því að koma hugmyndum um Sæmundarstofu í efnislegt form, svo hægt væri að sjá fyrir sér hvaða og hvers konar rými þyrfti að vera til staðar, annars vegar fyrir fræðimenn, hins vegar fyrir íbúa í héraðinu og síðan allan almenning og ferðafólk.

Oddakirkja:

Hugmyndir um Sæmundarstofu hafa frá upphafi miðast við byggingu á fjölnota menningarhúsi. Mjög snemma var ljóst að hluti þeirrar hugmyndar væri ný Oddakirkja, sem yrði höfuðkirkja héraðsins og gæti rúmað fjölda manns, bæði á árlegum kirkjuhátíðum, sem og við fjölmennar kirkjulegar athafnir eins og brúðkaup, fermingar og útfarir. Ný Oddakirkja ætti einnig að vera hönnuð með tilliti til tónlistarflutnings, og í því sambandi hefur m.a. verið rætt við forystufólk í tónlistarlífi og kórastarfi í Rangárþingi.  Þá hefur einnig verið rætt við lykilfólk m.a. hjá Sinfóníuhljómsveit Suðurlands og Sinfóníuhljómsveit Íslands, bæði tæknimenn, stjórnendur og hljóðfæraleikara, til þess að geta skilgreint hvers konar aðstaða þyrfti að vera fyrir hendi svo hljómsveitir af þeirri stærð ættu auðvelt með að halda tónleika í húsinu. Hér er líka horft til þess að árleg tónlistarhátíð, á borð við þær sem haldnar eru í Skálholti og Reykholti, geti farið fram í nýrri Oddakirkju.

Sæmundarstofa:

Aðstaða Sæmundarstofu í húsinu þarf að þjóna bæði fræðimönnum og almenningi, sem bókasafn, tölvuver og rannsóknaraðstaða, annars vegar, og hins vegar sem sýningarsalur, funda- og ráðstefnusalur og upplýsingamiðstöð um sögu Odda og Oddaverja. Hér hefur Oddafélagið ekki minnst tekið mið af því frábæra starfi sem farið hefur fram í Snorrastofu í Reykholti, enda má segja að starfsemi Snorrastofu hafi verið höfð að viðmiði við þróun þessara hugmynda. Móttaka og veitinga- og kaffihús ásamt verslun, tengd sýningarsal, er síðan sjálfsögð viðbót við það sem áður var nefnt.

Fjölnotasalir þurfa að standa íbúum héraðsins til boða, bæði fyrir fundi og hvers konar mannfagnaði; fyrir fyrirlestra, ráðstefnur, listviðburði og sýningar af hverju tagi, auk þess sem veislusalur þarf að vera til staðar og þar með góð eldhúsaðstaða, sem bæði gæti þjónað einkaveislum í sal sem og einnig kaffi- og veitingasölu í móttöku og verslun Sæmundarstofu.

Basalt arkitektar:

Stjórn Oddafélagsins ákvað að tímabært væri að setja allar þessar hugmyndir fram í efnislegt form, á myndrænan hátt, svo hægt væri að ræða þessar hugmyndir með íbúum í héraði og þeim öðrum aðilum sem myndu nýta húsnæðið og vilja njóta þess. Þess vegna var haft samband við Basalt – arkitektastofu, sem hefur fengið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín, bæði hér innanlands sem og alþjóðleg arkitektaverðlaun. Óskað var eftir því að þau myndu vinna faglega forsögn fyrir verkefnið, byggða á hugmyndum Oddafélagsins og setja fram á myndrænan hátt – sem tillögu að útfærslu – og það þarf undirstrika hér, að hin myndræna útfærsla sem fyrir liggur er hugmynd í þróun – og ber að skoða sem fyrstu atrennu að lausn verkefnisins.

Oddafélagið óskaði einnig eftir að byggingin yrði hugsuð þannig að hún yrði mögulega reist í áföngum, þannig að þegar fyrsta áfanga væri lokið gæti starfsemi hafist þar, þó svo að næstu áfangar væru enn ekki risnir. Þetta var hugsað sem hagkvæm leið með tilliti til fjármögnunar verkefnisins. Höfuðáhersla var lögð á að greina hvaða aðstaða þyrfti að vera í húsinu, hvaða stærðir þyrfti að leggja til grundvallar, hverjir væru áfangar verkefnisins og hvar væri skynsamlegast að byggja.

Sæmundarstofa ses.

Loks ber að geta þess að Oddafélagið er áhugamannafélag. Þó áhuginn sé mikill og félagsmenn fullir af eldmóði þá þarf auðvitað meira til, þannig að uppbygging Sæmundarstofu og nýrrar Oddakirkju geti orðið að veruleika. Þess vegna er vinna hafin við stofnun Sæmundarstofu ses. – sjálfseignarstofnunar – með þátttöku sveitarfélaganna þriggja í Rangárþingi, ríkisins, þjóðkirkjunnar og Háskóla Íslands auk Oddafélagsins. Verkefnið yrði þá fengið í hendur stjórnar þessarar sjálfseignarstofnunar, sem getur nýtt hugmyndir og grunnvinnu Oddafélagsins, t.a.m. sem ramma að faglegri hugmyndasamkeppni varðandi endanlegt útlit og útfærslu byggingarinnar.

Þegar um svo merkan og mikilvægan þjóðmenningarstað sem Odda er að ræða verður að vanda til verka og hugsa til framtíðar. Nú eru aðeins 9 ár þangað til upp rennur 900 ára ártíð Sæmundar fróða Sigfússonar, sem lést þann 22. maí árið 1133. Þennan tíma þarf að nýta vel svo hægt verði að halda veglega minningarhátíð í Odda í nýrri Oddakirkju og Sæmundarstofu.

Með byggingu Sæmundarstofu og Oddakirkju er okkar kynslóð að leggja hornstein að öflugri menningarsókn Rangárþings inn í framtíðina, líkt og Sæmundur og niðjar þeirra Guðrúnar Kolbeinsdóttur gerðu svo vel á sinni tíð í Odda, að 900 árum síðar njótum við enn ávaxtanna af þeirra starfi.

spot_img

MEST LESIÐ:

Heilagur Nikulás

6. desember er ártíðardagur heilags Nikulásar, en Oddakirkja var honum vígð af Sæmundi Sigfússyni, að því er fornar heimildir greina.

Halldór í Holti styður uppbyggingu í Odda

Séra Halldór í Holti hvatti til sameiningar sveitarfélaga og samvinnu um uppbyggingu í Odda.