HeimFréttir og greinarOddi, hinn æðsti höfuðstaður

Oddi, hinn æðsti höfuðstaður

Friðrik Erlingsson, stjórnarmaður í Oddafélaginu, birti grein í Morgunblaðinu um framtíðaruppbyggingu í Odda.

Eftir aðeins 13 ár minnumst við 900 ára ártíðar Sæmundar Sigfússonar hins fróða, sem lést þann 22. maí 1133.

Á liðnu sumri hófst fornleifauppgröftur að nýju í Odda á Rangárvöllum, undir stjórn Kristborgar Þórsdóttur, fornleifafræðings hjá Fornleifastofnun. Hinn stóri hellir, sem fannst fyrir tveimur árum, var nú rannsakaður betur og m.a. var birt þrívíddarmynd af hellinum í fjölmiðlum.

Uppgröfturinn mun halda áfram á sumri komanda, en hann nýtur styrks frá RÍM verkefninu, Ritmenningu íslenskra miðalda, sem er fimm ára þverfaglegt rannsóknarverkefni á vegum ríkisstjórnarinnar, með aðkomu fjögurra sögustaða þar sem ritstofur voru starfræktar á miðöldum: Odda, Þingeyra, Staðarhóls og Reykholts, en Stofnun Árna Magnússonar er einnig aðili að þessu verkefni, sem er undir stjórn Snorrastofu í Reykholti.

RÍM verkefninu var hleypt af stokkunum í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins, en aðrir styrktaraðilar Oddarannsóknarinnar eru m.a. Héraðsnefnd Rangæinga, Uppbyggingarsjóður Suðurlands og ráðherra nýsköpunar-, iðnaðar- og ferðamála.

Sérstakt rannsóknarteymi er tengt hverjum stað, og í tilfelli Odda stendur teymið af Kristborgu Þórsdóttur, Ármanni og Sverri Jakobssonum, Agli Erlendssyni og Helga Þorlákssyni, prófessor, sem leiðir starf teymisins. Fyrir utan fornleifauppgröft er Oddi rannsakaður m.a. sem lærdómsmiðstöð, kirkju- og valdamiðstöð auk þess sem áhrif mannvistar á umhverfi staðarins í gegnum aldirnar eru rannsökuð. Það er því óhætt að segja að æsispennandi tímar séu framundan, þegar fortíð Oddastaðar fer smám saman að rísa úr myrkri aldanna.

Markmið Oddafélagsins hefur frá upphafi verið að standa að uppbyggingu menningar- og fræðaseturs í Odda í nafni Sæmundar Sigfússonar. Framtíðar uppbygging í Odda hlýtur þó ávallt að standa á grunni þeirra upplýsinga sem fornleifa- og fræðirannsóknir munu leiða í ljós, um leið og stofnun og rekstur menningar- og fræðaseturs þarf að þjóna íbúum héraðsins sérstaklega, síðan landsmönnum öllum og erlendum gestum.

Sú mynd sem flestir Íslendingar hafa af Sæmundi Sigfússyni er mynd af tilbúinni þjóðsagnapersónu. Eitt af stofnmarkmiðum Oddafélagsins er að varpa ljósi á hinn raunverulega mann að baki þjóðsögunni: soninn, eiginmanninn, föðurinn, prestinn, rithöfundinn, fræði- og lærdómsmanninn, hinn lögmennta kirkjugoða og aðalsmann á íslenska miðaldavísu. Í heild sinni mun Oddarannsóknin dýpka og breikka mynd okkar af Sæmundi Sigfússyni, afkomendum hans og sögu Odda.

Frá því að fornleifauppgröftur hófst, árið 2018, hefur stjórn Oddafélagsins unnið að hugmyndadrögum að framtíðar uppbyggingu menningar- og fræðaseturs í Odda. Í byrjun september sendi stjórnin þær tillögur til félagsmanna til að fá athugasemdir og opna á umræður hjá félagsmönnum og í héraðinu. Drögin hafa einnig verið send sveitarstjórnum í Rangárþingi og á þessum tímapunkti hefur stjórnarmönnum félagsins verið boðið að kynna þau á fundi hjá einni sveitarstjórn, enn sem komið er.

Stjórn Oddafélagsins stefnir að því að halda opinn fund í Rangárþingi um það sem rangæingar vilja helst ræða í tengslum við Odda framtíðarinnar – en vegna Covid19 hefur dagsetning ekki verið ákveðin. Vilji Oddafélagsins er að hvetja til víðtækrar umræðu í héraðinu um framtíðar uppbygginu menningar- og fræðaseturs í Odda, til þess að sem breiðust samstaða verði um þær hugmyndir sem síðan verða lagðar til grundvallar frekari úrvinnslu.

Í lok nóvember mun rannsóknarteymi Oddarannsóknarinnar halda fyrstu haustráðstefnu sína í Gunnarsholti og kynna helstu rannsóknarverkefni og framvindu þeirra. Þangað eru allir velkomir – með takmörkunum þó – en einnig verður streymt frá þeim fundi svo þeir sem ekki komast geti fylgst með heima.

Stjórn Oddafélagsins vill hvetja alla þá sem áhuga hafa á málefnum og sögu Odda, og þá sérstaklega íbúa á Suðurlandi, að skrá sig í Oddafélagið (oddafelagid.net) og fá þar tíðindi af því merka og mikilvæga starfi sem nú er að eiga sér stað á vegum þess.

Í sögu Þorláks helga er Oddi nefndur „æðsti höfuðstaður“ og það er markmið Oddafélagsins að Oddastaður megi bera það viðurnefni með réttu í framtíðinni. En framtíðin er ekki langt undan: Eftir aðeins 13 ár minnumst við 900 ára ártíðar Sæmundar Sigfússonar hins fróða, sem lést þann 22. maí 1133. Stjórn Oddafélagsins lítur svo á að ekki sé eftir neinu að bíða að taka fyrstu skóflustunguna að framtíðinni í Odda.

Oddafélagið, samtök áhugamanna um endurreisn menningar- og fræðaseturs að Odda á Rangárvöllum, var stofnað árið 1992. Núverandi stjórn skipa: Ágúst Sigurðsson, Árni Bragason, Bergþóra Þorkelsdóttir, sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir, Elvar Eyvindsson, Friðrik Erlingsson, dr. Helgi Þorláksson.

Friðrik Erlingsson

Höfundur er rithöfundur og stjórnarmaður í Oddafélaginu.

spot_img

MEST LESIÐ: