HeimFréttir og greinarFréttapistill 1. desember 2020

Fréttapistill 1. desember 2020

Dæmi um ágætis undirfyrirsögn þar sem væri inngangur að textanum.

 

Í dag, 1. desember, er Oddafélagið 30 ára, stofnað á þessum degi árið 1990. Vegna allra þeirra takmarkana sem nú eru í gildi hafa engar fagnaðarsamkomur verið skipulagðar, en við vonum að á nýju ári gefist okkur tækifæri til þess, og þá helst á Oddastefnu næsta sumars í byrjun júlí. Haustráðstefnu Oddarannsóknarinnar hefur verið frestað af sömu ástæðu.

Við höfum nú kynnt framtíðarstefnu Oddafélagsins fyrir sveitarstjórnum sveitarfélaganna í Rangárvallasýslu og fengið jákvæð og hvetjandi viðbrögð. Þá hefur framtíðarstefnan að sjálfsögðu verið kynnt fyrir sóknarnefnd Oddakirkju sem hefur fagnað þessu framtaki okkar og styður af heilum hug. Þá er unnið að því að kynna hugmyndirnar víðar og áætlað að halda veglegan kynningarfund í héraði um leið og færi gefast er samkomutakmörkunum léttir. Verkefnið hefur jafnframt verið kynnt fyrir  alþingismönnum og einnig stuttlega fyrir ríkisstjórn og biskupi en áætlanir eru um frekari kynningar og samráð á þeim vettvangi. Merki fyrir félagið er í undirbúningi, sem og tillögur að nýrri heimasíðu. Það er ánægjulegt að á þessum tímamótum í félaginu skuli svo margt áhugavert og spennandi vera í farvatninu, þá fyrst og fremst Oddarannsóknin í samstarfi við RÍM verkefni ríkistjórnarinnar og svo undirbúningur að uppbyggingu menningar- og fræðaseturs í nafni Sæmundar Sigfússonar. 

Á myndinni hér neðar má sjá forystufólk Oddarannasóknarinnar, þau Helga Þorláksson, Kristborgu Þórsdóttur, Ármann Jakobsson, Egil Erlendsson og Sverri Jakobsson. Þau stýra hvert sínu verkefni innan rannsóknarinnar og bindum við miklar vonir við að með slíkt úrvalsfólk í forystu muni góður árangur nást á næstu misserum og árum við að skerpa skilning okkar á sögu Odda og greina líf og starf þess fólks sem staðinn bjó á sinni tíð.

Þegar hafa meistaranemar tengst inn á einstök verkefni rannsóknarinnar og má þar nefna m.a. Ragnhildi Önnu Kjartansdóttur sem Sverrir leiðbeinir og hinn portúgalska Miguel Andrade sem er undir handleiðslu Ármanns. Í lok þessarar viku er fyrirhugaður samráðsfundur Oddarannsóknarinnar og stjórnar Oddafélagsins þar sem verður farið yfir stöðu mála en málþing og ráðstefnur verða að bíða betri tíma eins og við vitum.

Sú ánægjulega þróun hefur orðið nú í sumar og haust að Oddafélögum hefur fjölgað allnokkuð og eru félagar nú orðnir 186. Við viljum nota tækifærið og þakka félagsmönnum fyrir að bregðast almennt hratt og vel við því að greiða árgjaldið góða og hófstillta. 

Gaman er að minnast þess að undir lok júlímánuðar flutti Friðrik Erlingsson rithöfundur og Oddafélagi gríðarlega vel sótt erindi um Fingraför Sæmundar fróða. Erindið flutti hann í Hlöðunni að Kvoslæk í Fljótshlíð sem þau Björn Bjarnason og Rut Ingólfsdóttir standa að með miklum glæsibrag. Þess má geta að Björn og Rut hlutu Menningarverðlaun Suðurlands nú í haust fyrir sitt góða framtak með Hlöðuna.

Í viðtali við Dr. Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóra og Oddafélaga, í Morgunblaðinu þann 27. nóvember, upplýsti hann að næsta bók hans yrði um Sæmund Sigfússon, en nú í haust kom út eftir hann bókin Uppreisn Jóns Arasonar. Um leið og við hvetjum félagsmenn til að verða sér úti um bók Ásgeirs um Jón Arason, bíðum við ekki síður spennt eftir bók hans um Sæmund Sigfússon, enda er það markmið félagsins að draga fram í dagsljósið manninn á bakvið þjóðsöguna og styðja hvern þann sem vinnur í þeim anda.

Áfram er unnið að því að bæta aðstöðu Oddafélagsins í Ekru en segja má að sú aðstaða hafi hlotið fyrstu vígslu nú síðsumars þegar Kristborg fornleifafræðingur mætti á svæðið með félögum sínum. Þau nýttu aðstöðuna á meðan á dvölinni stóð og létu vel af vistinni. Þessi aðstaða á eftir að nýtast okkur gríðarlega vel í því rannsókna- og uppbyggingastarfi sem framundan er í Odda og gefur marga möguleika. Eitt af markmiðum sumarsins hjá Kristborgu og félögum var að láta vinna þrívíddarlíkan af hellinum í Odda. Þau fengu til liðs við sig fyrirtækið Punktaský til verksins og útkoman var hreint magnað myndband sem sýnir inn í hellinn og tóftina framan við hann. Líklega sýnishorn af þeirri tækni sem verður nýtt þegar kemur að því að segja sögu Odda á næstu árum.

Oddafélagið hefur fengið til liðs við sig Sigríði Sigþórsdóttir arkítekt til að hefja undirbúning að fyrstu skrefum hugmyndavinnu varðandi mögulega uppbyggingu í Odda. Það er nauðsynlegt að hafa fagmann með sér allt frá fyrstu skrefum og Sigríður hefur mikla reynslu af slíkum undirbúningi og þekkt langt út fyrir landsteinana af verkum sínum í gegnum tíðina. Meira af því síðar. 

Kvæði séra Matthíasar Jochumssonar prests í Odda – Gammabrekka – er okkur Oddafélögum ávallt innblástur. Í kvæðinu sem birtist í Eimreiðinni 1902 fer hann yfir sögu Odda og íbúa hans og horfir einnig til framtíðar. Þar má velja þau erindi sem henta tilefninu og það má til sanns vegar færa að Oddi sé nú á tímamótum og hvatning skáldsins því við hæfi:

Lát hljóminn heyra, gígja, til heiðurs Oddastað!

Og yngi öldin nýja þau orð, sem skáldið kvað.

En brostu, Brekkan kæra, og ber af hverjum hól

Á meðan hönd menn hræra og Heklu gyllir sól!

Hvernig er það annars – þurfa ekki tónskáld að finna gott lag við þetta kvæði þannig að kórar megi láta hljóma á næstu Oddahátíð?

Bestu jólakveðjur og nýársóskir frá stjórn Oddafélagsins

Ágúst Sigurðsson

spot_img

MEST LESIÐ: