HeimFréttir og greinarSæmundur fróði og Snorri: Grein Björns Bjarnasonar um rannsóknarverkefnið Ritmenning íslenskra miðalda

Sæmundur fróði og Snorri: Grein Björns Bjarnasonar um rannsóknarverkefnið Ritmenning íslenskra miðalda

„Framgangur ritmenningarverkefnisins ber vott um ánægjulega grósku í rannsóknum og áhuga á menningarlegri gullöld miðalda hér á landi.“

Í tilefni af því að árið 2019 voru 75 ár liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi var stofnað til fimm ára átaksverkefnis um þverfaglegar rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda. Ríkisstjórnin myndaði sjóð til að styrkja rannsóknir á þessu sviði, m.a. með því að efla rannsóknir á heimildum um ritunarstaði miðaldahandrita á Íslandi og þá sérstaklega á þeim lærdómsmiðstöðvum og klaustrum þar sem ritmenning blómstraði.

Fyrstu styrkir voru veittir úr sjóðnum í fyrra. Að styrkveitingunni kemur sérstök úthlutunarnefnd en Snorrastofa í Reykholti annast umsýslu vegna verkefnisins. Hún auglýsti nýlega eftir umsóknum vegna styrkja ársins 2021 en í auglýsingu vegna þeirra segir að áætlað árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins sé 35 m.kr. á tímabilinu 2020 til 2024.

Verkefnið skiptist í tvo verkþætti: Annars vegar að rannsaka menningarminjar og umhverfi tengt ritmenningarstöðum miðalda og hins vegar handrita- og bókmenningu þeirra.

Í fyrra runnu stærstu styrkirnir, 7 m. kr. hver styrkur, til rannsókna á þremur stöðum, styrkþegar voru: Elín Ósk Heiðarsdóttir fyrir hönd Fornleifastofnunar Íslands vegna verkefnisins Staðarhóll í Dölum: Höfuðból í minjum, sögu og sagnaritun, Steinunn Kristjánsdóttir fyrir hönd Háskóla Ísland, vegna verkefnisins Þingeyraklaustur: Hjarta ritmenningar í fjórar aldir, og Helgi Þorláksson fyrir hönd Oddafélagsins vegna verkefnisins Oddarannsóknin.

Snorrastofa hefur umsýslu verkefnisins vegna þess að þar hefur á undanförnum aldarfjórðungi verið unnið að því að festa menningarafrek miðalda í sessi með því að tengja þau sögustað, Reykholti í Borgarfirði, og minningu Snorra Sturlusonar. Starf Snorrastofu var forsenda Reykholtsverkefnisins sem reist er á fornleifarannsóknum og margvíslegum öðrum rannsóknum til að leiða þennan forna stað inn í samtíðina og gefa honum nýtt gildi í krafti fortíðar. Við alla uppbyggingu höfðu sr. Geir Waage og samstarfsmenn hans allt frumkvæði, án sambýlis við Reykholtssöfnuð og sóknarprest hefði Snorrastofa aldrei náð að dafna.

Stofan stendur ekki aðeins að rannsóknum og umsýslu á innlendum vettvangi heldur einnig alþjóðlegum. Forn trúarbrögð Norðursins er verkefni sem birtist í sjö binda verki um norrænu goðafræðina á ensku. Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, hefur í 12 ár haldið utan um þetta mikla og metnaðarfulla verkefni og aflað til þess fjár. Rannsóknasjóður í Ástralíu styrkti það til dæmis veglega.

Þess var minnst 1. desember 2020 að þann dag árið 1990 var Oddafélagið stofnað. Í Oddafélaginu eru áhugamenn um endurreisn menningar- og fræðaseturs að Odda á Rangárvöllum. Tilgangur félagsins er að gera Odda að miðstöð menningar á nýjan leik með áherslu á sögu staðarins og mikilvægi hans um aldir.

Oddafélagið hefur ráðið Friðrik Erlingsson rithöfund sem verkefnastjóra félagsins.

Í vikunni birtist viðtal við Friðrik hér í blaðinu. Hann sagði að Oddafélagið stefndi að því að byggja nýja Oddakirkju og menningar- og fræðasetrið Sæmundarstofu í Odda á Rangárvöllum. Mannvirkin og starfsemi í þeim yrði menningarmiðja Suðurlands. Þar yrði rúmlega þúsund ára sögu og mannlífs staðarins gerð skil. Aðeins eru tólf ár þar til 900 ára ártíðar Sæmundar fróða, frægasta sonar Odda, verður minnst.

Sæmundur fróði er sveipaður dulúð áhrifamanns á bak við tjöldin. Margir hafa rýnt í sögu hans og nú hefur Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gefið út að næsta bók hans verði um Sæmund fróða. Friðrik Erlingsson segir að víða megi sjá fingraför Sæmundar.

Framgangur ritmenningarverkefnisins ber vott um ánægjulega grósku í rannsóknum og áhuga á menningarlegri gullöld miðalda hér á landi. Víðtækur almennur áhugi á miðaldamenningunni birtist meðal annars í fjölmenni sem sækir fyrirlestra á vegum Miðaldastofu Háskóla Íslands.

Gildi þess að geta tengt menningarafrekin við staði á borð við Reykholt og Odda er ómetanlegt og stuðlar að almennri kynningu og vitund um rætur menningarinnar og erindi hennar við samtímann.

Á líðandi stund er til dæmis fráleitt að líta þannig á að fræði Snorra Sturlusonar höfði aðeins til þeirra sem horfa til fortíðar. Vitneskja um efni þeirra auðveldar skilning á verkum samtíðar.

Krúnuleikarnir, Game of Thrones, runnu sitt skeið sem vinsæl og heimsfræg þáttaröð í sjónvarpi á árinu 2019. Þeir lifa þó enn í hugum margra. Skipulagðar eru ferðir um Ísland til að sjá hvar sum atriði í þáttaröðinni voru kvikmynduð. Hitt væri ekki síður merkilegt að kynna þræði sögunnar aftur til Snorra Sturlusonar á nútímalegri sýningu.

Snorrastofa og Háskóli Íslands ýttu árið 2016 úr vör alþjóðlegu rannsóknarverkefni: Heimskringla og framhaldslíf Snorra Sturlusonar. Undir merkjum þess er leitast við að kortleggja hvernig verk Snorra lifa í bókmenntaverkum, tónverkum, teikni- og myndlist og kvikmyndum allt fram á þennan dag þegar dreifing þeirra eykst en minnkar ekki.

Snorri Sturluson ólst upp hjá höfðingjum í Odda og hlaut þar menntun og menningu í arf frá Sæmundi fróða. Að endurvekja vitundina um afreksmenn íslenskrar menningar í alþjóðlegum straumum miðalda er verðugt og gefandi verkefni fyrir samtímann.

Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is

spot_img

MEST LESIÐ:

Hugmynd í þróun: Sæmundarstofa og Oddakirkja

Þegar um svo merkan og mikilvægan þjóðmenningarstað sem Odda er að ræða verður að vanda til verka og hugsa til framtíðar.