Kristborg Þórsdóttir fornleifafræðingur var fengin til að stýra þessu verki sem hún skilað af sér með sóma á haustdögum. Áætlunin liggur fyrir í formi skýrslu þar sem verkefni eru skilgreind og tímasett en áætlunin tekur til áranna 2018-2020.
Meðal verkefna sem ráðast á í er uppgröftur hinna frægu Nautahella Sæmundar, kortlagning gjóskulaga auk margháttaðra rannsókna á Oddastað með hinum fjölbreyttu aðferðum fornleifafræðinnar, kjarnaborun, ómsjármælingar, segul- og viðnámsmælingar.
Þá verður mikil áhersla lögð á fræðslu- og kynningu samhliða rannsóknum og þannig er áætlað að koma á fót s.k. Fornleifaskóla unga fólksins í Odda. Þess má geta að Oddafélagið hlaut fjárstyrki frá Samtökum Sunnlenskra Sveitarfélaga og Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til þess að vinna áætlunina sem gáfu verkefninu byr undir báða vængi.
Kristborg kynnti áætlunina fyrir stjórn Oddafélagsins og sóknarnefnd Oddakirkju á dögunum og er mikil tilhlökkun sem fylgir því að hrinda henni í framkvæmd. Áður en til þess kemur þarf þó að vinna áfram að fjármögnun – nú er að einhenda sér í þau mál en áætlunin gerir ráð fyrir að hefjast handa með rannsóknir næsta vor.