HeimFréttir og greinarHeilagur Nikulás

Heilagur Nikulás

6. desember er ártíðardagur heilags Nikulásar, en Oddakirkja var honum vígð af Sæmundi Sigfússyni, að því er fornar heimildir greina.

Nikulás var m.a. verndardýrlingur farmanna, kaupmanna og barna. Það hefur mögulega verið hin hagnýta ástæða þess að Sæmundur vígði kirkjuna Nikulási, því erlendum farmönnum og kaupmönnum hefur þótt gott að koma hér að landi þar sem kirkja áheitadýrlings þeirra stóð. Sagnir af heilögum Nikulási hafa verið sagðar í Oddakirkju á þessum degi; þá hefur vígsluhátíð verið haldin og e.t.v. hafa helgileikir verið sviðsettir. Sæmundur Jónsson, langafabarn Sæmundar fróða hélt ævinlega mikla veislu í Odda á ártíðardegi Nikulásar.

Heilagur Nikulás var fjórði vinsælasti dýrlingur þjóðarinnar á miðöldum á eftir Maríu mey, Pétri og Ólafi helga. Samkvæmt Fornbréfasafninu má telja 41 kirkju, 4 bænahús og hálfkirkjur vígðar Nikulási, en í 12 kirkjum er hann verndardýrlingur; alls eru þá 57 staðir helgaðir honum.

Orðstír dýrlingsins óx hratt meðal alþýðufólks, ekki síst vegna helgisagnanna um vana hans að gefa gjafir leynilega; m.a. átti hann það til að setja pening í skó þeirra sem stilltu honum fram á minningardegi hans, 6. desember, kannski út í glugga, en þessi gjafmildi biskupsins gerði það að verkum að hann þróaðist upp í þá fígúru sem við þekkjum í dag sem ameríska jólasveininn: Santa Claus, Saint Nicholas.

En það var svolítið annað sem fylgdi Nikulásardýrkun: honum fylgdu verur sem ýmist voru aðstoðarmenn, hrekkjalómar, dárar eða stakur púki, sem Nikulás hafði ávallt í bandi eða keðju, m.ö.o. púka sem hann vafði um fingur sér. Púkar þessir eru augljóslega heiðnar vættir sem hinn kristni dýrlingur hefur náð valdi á. Kannski urðu nöfn þeirra Pauri eða Kölski á íslensku.

Helgileikir á miðöldum voru frumgerð leikhússins, þar sem saga var sögð af dýrlingnum; einhver klæddi sig upp sem heilagan Nikulás og leikin voru atriði úr lífi hans, sem áhrifamest þóttu til að sýna göfgi hans, gjafmildi og þrótt til að láta áheit rætast. Og það hefur þá væntanlega verið þáttur í þessum helgileikjum að hrekkjalómurinn Kölski eða Pauri kom við sögu, kannski bauð hann Nikulási upp á veðmál, sem hann auðvitað tapaði með skömm; kannski reyndi hann að narra Nikulás til að selja sér sál sína, en varð svo smánarlega af kaupinu; og kannski lék hann lausum hala um alla kirkju, þar til Nikulás kom loks á hann böndum, – narraði hann kannski til að gera sig svo lítinn að hann kæmist inn í hrosslegg – festi á hann hálsól og lét hann síðan sleikja flórinn, flytja heyið heim eða þjóna sér á annan hátt.

Hafi nú slíkir karnivalískir helgileikir farið fram í Odda hafa þeir vafalaust verið hin besta skemmtun, og það er ekki nema eðlilegt að aðalpersónan, heilagur Nikulás, hafi smám saman vikið fyrir sögumanninum, Sæmundi, sem gæti vel hafa leikið heilagan Nikulás í helgileikjum Oddakirkju á ártíðardegi dýrlingsins.

spot_img

MEST LESIÐ:

Hauststefna Oddafélagsins 7. október

Menningarsalnum á Hellu, Dynskálum 8.

Heilagur Nikulás

6. desember er ártíðardagur heilags Nikulásar, en Oddakirkja var honum vígð af Sæmundi Sigfússyni, að því er fornar heimildir greina.