HeimFréttir og greinarÞórður í Skógum sæmdur fyrsta gullmerki Oddafélagsins

Þórður í Skógum sæmdur fyrsta gullmerki Oddafélagsins

Heiðursfélagi Oddafélagsins, Þórður Tómasson í Skógum, var í dag sæmdur fyrsta gullmerki félagsins í virðingar og þakkarskyni fyrir söfnun, varðveislu og miðlun menningararfsins.

 

Þór Magnússon, Þórður, Guðni Th. Jóhannesson og Margrét Hallgrímsdóttir.

Stjórn Skógasafns hélt Þórði Tómassyni í Skógum afmælishóf í dag í tilefni af 100 ára afmæli hans þann 28. apríl. Þangað komu góðir gestir: forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson; þjóðminjavörður, Margrét Hallgrímsdóttir; Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður og þrír stjórnarmenn úr Oddafélaginu, en Þórður hefur lengi verið heiðursfélagi Oddafélagsins.

Ingvar Pétur Guðbjörnsson, formaður stjórnar Skógasafns, bauð gesti velkomna og færði Þórði glæsilegt handmálað heiðursskjal frá stjórn safnsins eftir Þórhildi Jónsdóttur frá Lambey.

Elvar Eyvindsson, gjaldkeri Oddafélagsins, nælir gullmerkinu í barm afmælisbarnsins.

Ágúst Sigurðsson, formaður Oddafélagsins, flutti Þórði heillaóskir félagsmanna og sæmdi hann fyrsta gullmerki félagsins í heiðurs- og þakklætisskyni fyrir störf sín við söfnun, varðveislu og miðlun menningarminja. Merkinu fylgdi heiðursskjal, skrautritað af Vigdísi Guðjónsdóttur. Þar stendur:

Heill þér tíræðum
heiðursfélagi
Þórður Tómasson

í Skógum.

Í tilefni aldarafmælis þíns
og með þökk fyrir elju þína
við fræðistörf, ritstörf
og uppbyggingu Skógasafns
vill stjórn Oddafélagsins

sæma þig fyrsta gullmerki félagsins.

Lengi munu verk þín lifa með þjóð vorri.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.

Forseti Íslands fór fögrum orðum um Þórð og störf hans og þakkaði honum fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, færði Þórði blómvönd frá forsætisráðherra og safninu veglega bókagjöf í tilefni af afmæli hans og kveðjur frá starfsfólki Þjóðminjasafns.

Í kaffisamsætinu minntist Þór Magnússon kynna sinna af Þórði og vináttu þeirra í gegnum árin og áratugina og afmælisbarnið þakkaði fyrir sig með glæsilegri ræðu þar sem hann rifjaði upp þegar hann fann köllun sína ungur að árum: að bjarga munum og minningum fortíðarinnar sem voru óðum að hverfa allt í kringum hann.

Þjóðin öll, en við Sunnlendingar sérstaklega, eigum Þórði í Skógum mikið að þakka og fögnum með honum á þessum merku tímamótum.
spot_img

MEST LESIÐ:

Vel sótt Oddastefna í Háskóla Íslands

Með hverri Oddastefnu stækkar og dýpkar myndin af Odda og Oddaverjum á miðöldum.

Rannsóknir í Odda halda áfram

Fornleifastofnun Íslands heldur uppgreftri áfram í Odda í sumar.