HeimFréttir og greinarSögusýningin rís úr jörðu

Sögusýningin rís úr jörðu

Sögusýningin „Sæmundur fróði og saga Odda 930-1305“ tekur smám saman að rísa úr jörðu. Nú í janúar komu starfsmenn Þjótanda á staðinn og lögðu gönguramp niður í Oddalund og settu jarðveg undir hringpallinn í miðjum lundinum, undir styrkri stjórn Þorsteins Jónssonar, sem sér um framkvæmdastjórn á þessu verkefni Oddafélagsins.

Þetta var mögulegt vegna þess að hjónin Ólafur Einarsson og Steinunn Birna Svavarsdóttir í Þjótanda vildu styrkja Oddafélagið í þessu verkefni og gerðu það með sóma og sann. Nágrannar Odda, ábúendur í Vindási, gáfu jafnframt efnið úr námu sinni til verksins. Báðum þessum aðilum þakkar Oddafélagið af hjarta fyrir rausn þeirra, velvild og drengskap.

Næstu framkvæmdir eru að leggja mottur á göngurampinn og ganga frá hringsvæðinu. Vinnsla ljósmyndanna gengur hægt en örugglega, enda starfið flókið og tímafrekt. Hönnun og undirbúningur fyrir skiltaborgina sjálfa er á byrjunarstigi, en skiltaborgin samanstendur af níu skiltum þar sem sögu Odda frá upphafi og fram um 1300 verður gerð skil, með ljósmyndum af helstu persónum í sögu Odda.

Svona verkefni skiptist upp í mörg smærri verkefni og atriði sem öll verða að falla vel hvert að öðru svo allt gangi upp, og þar spila fjármunir jafnan stærsta hlutverkið. En margir eru tilbúnir að leggja Oddafélaginu lið, eins og Ólafur og Steinunn Birna í Þjótanda og nágrannar okkar í Vindási, til þess að vekja úr mold hina sögustóru fold, eins og séra Matthías Jochumsson orðaði það í kvæði sínu Á Gammabrekku, sem hann orti þegar hann var prestur í Odda.

Vonandi tekst okkur að láta draum Matthíasar rætast, svo gestir og gangandi geti til allrar framtíðar komið í Odda og kynnt sér sögu staðarins og helstu persónur af ætt Oddaverja.

Hér má sjá nokkrar ljósmyndir úr sögusýningunni á vinnslustigi. Ljósmyndir og myndvinnsla: Brynjar Ágústsson. Öll réttindi: Oddafélagið. Ekki er leyfilegt að afrita þessar myndir af síðunni. Allar upplýsingar veitir verkefnastjóri Oddafélagsins, Friðrik Erlingsson. Netfang: ritstjori@oddafelagid.is

Unglingurinn Sæmundur horfir til lands að ókunnri strönd, þar sem hann á að setjast á skólabekk.

 

Sigfús kennir Sæmundi ýmis fræði af bók, á meðan Þórey móðir hans kann þúsund kvæði og sögur af forfeðrunum.

 

Jón Loftsson var konungborinn í móðurætt, höfðingi heim að sækja og hélt stórveislur. Hér kveður skáld dýra drápu um gestgjafann, gestir drekka innflutt vín og fjörið er greinilega rétt að byrja.

 

Á efri árum fóstraði Jón Snorra litla Sturluson frá þriggja ára aldri. Hér er Snorri að læra að draga til stafs undir handleiðslu fóstra síns.
spot_img

MEST LESIÐ:

Nýjar fréttir af Odda og Oddaverjum

Stórbók um sögu Odda og Oddaverja er væntanleg á árinu

Sögusýningin rís úr jörðu

„Og samt þú svafst of lengi, ó sögustóra fold! Eg vil, en vantar strengi, að vekja þig úr mold.“ M.J.

Hugmynd í þróun: Sæmundarstofa og Oddakirkja

Þegar um svo merkan og mikilvægan þjóðmenningarstað sem Odda er að ræða verður að vanda til verka og hugsa til framtíðar.

Fornleifarannsókn í Odda heldur áfram í sumar

Úthlutað var úr Fornleifasjóði á dögunum og var uppgröfturinn í Odda eitt af þeim verkefnum sem fékk styrk en Oddafélagið styður einnig við rannsóknina,...