HeimFréttir og greinarRangæingar í Reykholti

Rangæingar í Reykholti

Þrír stjórnarmenn Oddafélagsins lögðu land undir fót laugardaginn 30. janúar og sóttu heim heiðurshjónin í Reykholti, sr. Geir Waage og frú Dagnýju Emilsdóttur.

Sr. Geir lét nýverið af embætti sem sóknarprestur í Reykholti og þau hjónin eru flutt úr prestbústaðnum í nýtt og þægilegt hús í Reykholti.

Erindi Oddaverja var að ræða við þau hjón um hina merku uppbyggingu á Snorrastofu í Reykholti, sem var opnuð aldamótaárið 2000, en ný Reykholtskirkja hafði verið vígð fjórum árum áður, 1996. Sr. Geir tók Rangæingana í skoðunarferð um glæsilegt húsnæði Snorrastofu og í hina fögru Reykholtskirkju.

Þau hjónin sögðu frá forsögu og framgangi uppbyggingar Snorrastofu og Reykholtskirkju, heimsóknum stórmenna, eins og Haraldar Noregskonungs og Sonju drottningar. Sjálf eru þau hjónin höfðingjar heim að sækja og Oddaverjar nutu gestrisni þeirra og örlætis.

Það er mikið lán Oddafélagsins að eiga vináttu slíkra höfðingja á höfuðbóli Snorra Sturlusonar, fóstursonar Odda, og eiga þar að auki frábært samstarf við forstöðumann Snorrastofu, Berg Þorsteinsson.

spot_img

MEST LESIÐ: