HeimFréttir og greinarRæða Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á Oddahátíð 2021

Ræða Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á Oddahátíð 2021

„Ég er stolt af því verkefni sem fór af stað til að rannsaka ritmenningu miðalda – og bjartsýn á að hér í Odda verði mennta- og fræðisetur að veruleika, áfangastaður fyrir okkur öll og mikilvæg miðja fyrir Rangæinga alla.“

Kæru gestir á Oddahátíð!

Sumir staðir á Íslandi geta kallast hluti af okkar sameiginlega minni. Staðir sem við höfum jafnvel ekki heimsótt en eiga svo ríkan þátt í sögu okkar að okkur finnst við hafa komið þangað. Þingvellir eru sá staður á Íslandi sem augljósast er að er hluti af þessu sameiginlega minni en aðra staði má nefna; Skálholt og Hóla, Reykholt og Odda.

Í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins var ákveðið árið 2019 að hleypa af stokkunum verkefni um íslenska ritmenningu, RÍM eða Ritmenning íslenskra miðalda. Stjórnvöld ákváðu þá að veita 35 milljónum króna á ári í fimm ára átaksverkefni til að rannsaka íslenska ritmenningu með sérstakri áherslu á þá staði sem gegndu þar lykilhlutverki. Oddi er einn af þeim stöðum en einnig Staðarhóll, Reykholt og fleiri.

En komum þá að þessum stað. Oddi á Rangárvöllum kann að vera hluti af okkar sameiginlega minni að því leytinu til að flestir kannast við ýmsa þá sem hér hafa búið fyrr á öldum. Staðurinn er tengdur minningu eins fyrsta prestsins á staðnum, Sæmundar Sigfússonar. Í Íslendingabók Ara fróða segir frá því að á milli 1076 og 1083 „kom Sæmundur Sigfússon sunnan af Frakklandi hingað til lands og lét síðan vígjast til prests“. Þetta er elsta heimildin sem þekkt er um Sæmund en hún er raunar að einhverju leyti frá honum sjálfum því að í upphafi Íslendingabókar segir að Ari hafi látið þrjá menn lesa hana yfir, biskupana í Skálholti og á Hólum og Sæmund prest. Þetta gerðist á efri árum Sæmundar, eftir 1122 en fyrir lát hans árið 1133.

Á þessum tíma gat Frakkland jöfnum höndum merkt franska konungsríkið, sem þó var iðulega nefnt Valland, eða héruð í suðurhluta Þýskalands sem á latínu kölluðust Franconia. Þar sem ekkert nánar er vitað um nám Sæmundar koma ýmsir staðir í Frakklandi og Þýskalandi til greina og hafa fræðimenn rætt málið rækilega á seinni árum. En kannski skiptir það ekki mestu máli. Sérstaða Sæmundar prests var sú að hann var einn af örfáum Íslendingum sem fór utan til náms á 11. öld og lærði á vegum hinnar alþjóðlegu kirkju. Sennilega var Sæmundur við nám í skóla á vegum dómkirkju einhvers staðar í Frakklandi eða Þýskalandi, því að háskólar voru þá ekki komnir til sögunnar.

Hvað lærði Sæmundur í þessum dómskóla? Námið var á vegum hinnar almennu rómversk-kaþólsku kirkju enda gekk Sæmundur í þjónustu hennar að því loknu. Það hefur verið af svipuðu tagi og prestsefni fengu almennt á þessum tíma. Í fyrsta lagi þurftu prestar að læra „grammaticam“, þ.e. latínu, enda þurftu prestar rómversk-kaþólsku kirkjunnar að geta messað á því máli. Hin aðalnámsgreinin var söngur sem einnig var hagnýt kunnátta til  messuhaldsins. Þeir sem voru lengra komnir lærðu ýmislegt fleira, s.s. mælskufræði, sem hefur komið sér vel fyrir presta. Þá þurftu prestar að kunna að reikna út hvenær halda ætti páska og aðrar hreyfanlegar hátíðir og því var ýmis konar stærðfræði fastur liður á námskrá kirkjunnar, ekki síst útreikningur tímatals.

Um 1200 var orðin til saga sem finna má í Jóns sögu helga að vinur Sæmundar, Jón Ögmundarson, hefði fundið hann erlendis og verið samferða honum heim. Þá hafði Sæmundur gleymt nafni sínu og hét bara Kollur. Kannski er þetta upphaf þjóðsagna um Sæmund sem galdramann en í Jónssögu segir líka að eftir heimkomuna hafi Sæmundur gerst prestur á Odda í Rangárvöllum.

Sæmundur prestur virðist hafa verið vinur og bandamaður biskupsins í Skálholti, Gissurar Ísleifssonar. Þeir beittu sér í sameiningu fyrir upptöku tíundar á Íslandi árið 1096 eða 1097, í samvinnu við lögsögumanninn Markús Skeggjason. Þáttaskil urðu í starfi íslensku kirkjunnar sem komst nú á traustan fjárhagslegan grundvöll. Skipulag sókna byggði á því að tiltekin kirkja fengi tíund bænda innan sóknarinnar en tíundin stóð einnig undir starfi biskupsstólsins, launum presta og fátækraframfærslu. Höfðingjar voru sáttir því að kirkjur voru iðulega á bæjum þeirra og pólitísk tækifæri fólust í því að fá söfnuðinn reglulega í heimsókn og axla ábyrgð á að kirkjustarf væri hið veglegasta. Tíundin markaði að mörgu leyti tímamót á Íslandi; kirkjan þróaðist frá því að vera trúboðskirkja yfir í að vera skipulögð stofnun þar sem sóknir voru grunneiningarnar.

Árið 1104 varð Ísland hluti af nýju umdæmi erkibiskups í Lundi sem náði til allra Norðurlanda. Lundur var á Skáni sem var hluti af ríki Danakonungs. Nýr biskupsstóll var settur á Hólum í Hjaltadal 1106 og þar hófst kennsla í latneskri málfræði, söng og öðru sem klerkar þurftu að læra. Vinur Sæmundar prests, Jón Ögmundarson, var fyrsti biskupinn þar en hafði áður verið prestur á Suðurlandi, í Breiðabólstað í Fljótshlíð.

Þetta uppbyggingarstarf hélt áfram eftir lát Gissurar biskups í Skálholti árið 1118 og Jóns biskups á Hólum árið 1121. Össur erkibiskup í Lundi kom að setningu kristniréttar ásamt Þorláki Runólfssyni biskupi í Skálholti og Katli Þorsteinssyni biskupi á Hólum, einhvern tíma á milli 1122 og 1133. Fjórði maðurinn sem tengdur er setningu kristniréttar er fyrrnefndur Sæmundur prestur. Sæmundur er þannig talinn upphafsmaður tíundarlaga ásamt biskupi og lögsögumanni og upphafsmaður kristniréttar ásamt erkibiskupi og tveimur biskupum ríflega aldarfjórðungi síðar. Allir aðrir sem komu að þessum málum gerðu það í krafti embætta sinna en Sæmundur virðist hafa haft persónulegt kennivald sem var óbundið af slíku.

Hvaðan kom Sæmundi slíkt kennivald? Var það nám hans erlendis sem gerði það að verkum að sjálfsagt þótti að leita til hans varðandi lagasetningu og skipan kirkjunnar? Sæmundur var sennilega í hópi fárra Íslendinga sem hafði stundað langskólanám suður í Evrópu. Það er eflaust hluti skýringarinnar en hún hlýtur einnig að tengjast samfélagslegri stöðu Sæmundar. Hann virðist hafa verið metinn meira af öðrum höfðingjum en samtíðarmenn hans. Á dögum hans varð Oddi andleg og veraldleg miðstöð. Sæmundur tók meira að segja unga höfðingjasyni í nám. Oddi Þorgilsson, sonur goðorðsmannsins Þorgils Oddasonar á Staðarhóli, fór til dæmis til Sæmundar í Odda í fóstur skömmu eftir 1120 til að fræðast.

Eins og nefnt var talar Ari fróði Þorgilsson um þrjá menn sem hann leitaði ráða hjá við samningu Íslendingabókar. Það voru biskuparnir Þorlákur og Ketill og Sæmundur prestur.  Því er ljóst að Íslendingabók var rituð á svipuðum tíma og kristniréttur var settur, á milli 1122 og 1133. Ekki er útilokað að tilefnið hafi verið svipað enda tengsl á milli lagasetningar og bókfestingar hins sögulega minnis. Lög áttu að taka mið af fornum venjum og sagnaritun snerist um að rifja upp upphaf ríkjandi skipunar.

Sæmundur prestur hlýtur einnig að hafa samið sagnarit, ef miðað er við hversu oft er vísað til hans í yngri ritum. Hvað innihald þeirra verka varðar er ekki aðrar ábendingar að fá en fáeinar tilvísanir. Margt af því efni tengist Noregskonungum. Sæmundur var borinn fyrir upplýsingum um ríkisár Hákonar jarls og atburði sem gerðust á valdatíma Ólafs Tryggvasonar. Ari vísar sjálfur til Sæmundar í Íslendingabók um fall Ólafs konungs. Í kvæðinu Noregskonungatali er fullyrt að Sæmundur hafi rakið ævi tíu Noregskonunga sem voru afkomendur Haralds hárfagra. Því er mögulegt að sú ættartala Noregskonunga sem Ari styðst við í Íslendingabók sé frá Sæmundi.

Í Sturlubók Landnámu er vitnað til Sæmundar varðandi menn sem sigldu frá Færeyjum til Íslands fyrir landnám. Segir að „sumir“ nefni Naddodd víking en ekki kemur fram hvort Sæmundur hafi gert það. Söguna um Færeyingana sem fundu Ísland fyrir landnám er einnig að finna í norskum konungasögum frá seinni hluta 12. aldar en ljóst er að þær styðjast að verulegu leyti við íslenskar heimildir. Ef til vill var glatað rit Sæmundar þar á meðal.

Þá er nokkrum sinnum vísað til Sæmundar prests varðandi hluti sem tengjast sköpun heimsins eins og henni er lýst í Gamla testamentinu, göngu sólar og tungls í upphafi heims og hæð Adams, fyrsta mannsins, sem var mun hærri en nútímamenn „eftir sögu Sæmundar“. Einnig vitnað til Sæmundar varðandi norræna konunga á dögum Krists og Ágústusar keisara, Frið-Fróða og Fjölnis. Má ætla af þessu að Sæmundur hafi samið eitt eða fleiri rit um veraldarsögu og sögu Noregskonunga. Þar hafa sennilega verið á ferð knöpp rit þar sem áhersla var lögð á tímatal, í svipuðum anda og Íslendingabók.

Eins og ég nefndi hér áðan var síðar farið að tala um Sæmund sem galdramann og kannski tengist það hinni róttæku breytingu á tjáningarformi sem hann innleiddi á Íslandi, að skrifa bækur og að nota stafrófið sem við notum ennþá (í stað rúnaleturs). Nýir miðlar eru ekki einkamál okkar sem lifum á tímum samfélagsmiðla og margs konar nýmiðlunar. Sæmundur var einn af upphafsmönnum þess að nýta nýja miðla til að miðla fróðleik og upplýsingum á 11. öld.

En ritmálið breytti líka inntakinu eða eins og Kanadamaðurinn Marshall McLuhan, upphafsmaður nútímalegrar fjölmiðlafræði, orðaði það, þá sníður miðillinn skilaboðin að sér. Á 11 og 12. öld voru umbreytingartímar sem einkenndust ekki einungis af pólitískum hræringum og átökum höfðingja heldur einnig innleiðingu nýrra miðla til að tjá hugsun sína. Sæmundur er gott dæmi um það. Sem sagnaritari var hann maður hins ritaða orðs á meðan flestar fyrri kynslóðir Íslendinga höfðu miðlað þekkingu á fortíðinni í gegnum frásagnir sem ekki voru ritaðar. Að einhverju leyti var ritmálið kunnátta forréttindahópa – ólíkt munnlegum frásögnum fyrri tíma.

Sæmundur fróði dagsins í dag væri vafalaust aðsópsmikill á nýjum miðlum, til dæmis á tístinu og myndi þar fremja galdra sína með því að vera frumlegri en aðrir tístarar. Kannski sæti hann bara á kaffihúsi í Reykjavík enda þyrfti hann ekki annað en síma og 4G. Og það má velta því fyrir sér hvort hann myndi ná til fleiri nú en hann gerði á sínum tíma því vissulega voru sagnarit þess tíma ekki fyrir alla – sagnaritarar voru staddir í bergmálshelli alveg eins og þeir sem tjá sig á forritunum í samtímanum.

Eftir að Sæmundur féll frá árið 1133 rak sonur hans, Eyjólfur, skóla í Odda og „hafði höfðingskap mikinn og lærdóm góðan, gæsku og vitsmuni gnægri en flestir aðrir“. Eyjólfur kenndi efnilegum ungum mönnum bóknám í Odda, líkt og faðir hans hafði kennt Odda Þorgilssyni. Því flutti Halla Steinadóttir í Odda ásamt syni sínum, Þorláki Þórhallssyni, sem síðar varð biskup í Skálholti og fyrsti íslenski dýrlingurinn. Ástæðan fyrir þessum flutningi er að Halla taldi að sonurinn myndi verða „dýrlegur kennimaður … af sínum góðum háttum ef nám hans gengi fram“. Sjálf fluttist hún með syni sínum og kenndi honum „ættvísi og mannfræði“ til hliðar við bóknámið hjá Eyjólfi. Þannig má segja að Þorlákur hafi „búið sig til biskupstignar“ fyrir tilstilli móður sinnar.

Samband Eyjólfs Sæmundarsonar og Þorláks varð náið og persónulegt; líkt og hinir karismatísku klerkar dómskólanna kenndi meistarinn lærisveinum sínum með því að vera þeim persónuleg fyrirmynd. Í Þorlákssögu kemur fram að Þorlákur hafi oft haft á orði þegar siðum hans var hælt „að hann kvað það vera siðvenjur Eyjólfs fóstra síns Sæmundarsonar“. Í Þorlákssögu er vitnað til Páls postula um að lærisveinar hans ættu að vera eftirlíkjarar hans „sem eg er Krists“ en í þessum orðum felst kjarni þeirra kennsluhátta sem stundaðir voru í dómskólum á 11. og 12. öld. Eyjólfur átti að vera fyrirmynd Þorláks, ekki síður en kennari.

Bróðir Eyjólfs, Loftur Sæmundarson fór til Noregs og gekk að eiga konu sem hét Þóra. Hún reyndist vera kóngsdóttir, dóttir Magnús berfætts sem var Noregskonungur um aldamótin 1100. Þau Loftur og Þóra áttu soninn Jón sem bjó í Odda eftir daga föðurbróður síns. Jón Loftsson varð ekki prestur heldur veraldlegur höfðingi og var talinn ráða mestu á alþingi á seinni hluta 12. aldar. Einn sonur hans, Páll, varð biskup í Skálholti næst á eftir Þorláki helga en annar sonur, Sæmundur, bjó í Odda eftir föður sinn og var talinn valdamesti maður á Íslandi í kringum 1200.

Af hverju varð Oddi mikilvægt höfðingjasetur? Oddi var í eigu kirkjunnar, en jarðir af því tagi voru kallaðir staðir. Samt sem áður bjuggu afkomendur Sæmundar á staðnum og fóru með hann eins og sína eign. Oddi hafði miklar tekjur og fékk t.d. ostatoll frá bændum í nágrenninu. Þá virðist Oddi hafa verið í alfaraleið, í þjóðbraut, og hefur Helgi Þorláksson í bók sinni Gamlar götur og goðavald tengt velgengni Oddaverja við legu staðarins. Bændur sem áttu leið hjá fengu að njóta rausnarskaps höfðingjanna í Odda.

Jón Loftsson var veraldlegur höfðingi en ekki prestur eins og afi hans eða föðurbróðir. Samt sem áður voru efnilegir snáðar sendir til hans í fóstur. Eins og Oddi Þorgilsson kom til Sæmundar og Þorlákur Þórhallsson til Eyjólfs þá kom Snorri Sturluson í fóstur til Jóns, einungis þriggja ára gamall. Það var hluti af sáttargerð á milli höfðingja á alþingi, þar sem Jón vildi sættast við föður Snorra, Sturlu Þórðarson í Hvammi. Sagan segir að Sturla hafi fylgt Snorra „til kirkjudags í Odda“ árið 1181 þannig að ljóst er að Oddahátíðir eiga sér langa sögu sem við sem hér erum í dag erum hluti af.

Sem staður var Oddi í eigu kirkjunnar og svo hlaut að fara að kirkjan gerði tilkall til eigna sinna, í stað þess að leyfa höfðingjum að fara með þær að eigin geðþótta. Sá sem það gerði var Árni Þorláksson, sem var biskup í Skálholti 1269-1298, í svo kölluðum staðamálum. Þegar sætt náðist í staðamálum, árið 1297, varð Oddi kirkjulén. Árni var hins vegar meðvitaður um tengsl Odda við samnefnda höfðingjaætt, Oddaverja, þannig að fyrsti presturinn sem fékk úthlutað Odda af hendi kirkjunnar, Grímur Hólmsteinsson, var afkomandi Jóns Loftssonar.

Eftir siðaskipti fór Oddi aftur í bændaeigu en var eitt af mikilvægustu brauðum landsins. Alls urðu sex prestar í Odda biskupar frá 15. öld til 19. aldar. Frægasti presturinn þar varð þó aldrei biskup. Það var þjóðskáldið Matthías Jochumsson sem var prestur í Odda 1880-1886.

Á síðari árum hefur Oddi verið utan þjóðleiðar og kannski ekki margir sem sjá ástæðu til að yfirgefa Þjóðveg 1 til að finna nið aldanna hér á Rangárvöllum. Á því kunna þó að verða breytingar. Oddafélagið hefur í meira en 30 ár haldið merki staðarins á lofti og hygg ég að á engan sé hallað þó ég nefni sérstaklega Þór Jakobsson í því samhengi. Og nú er þetta verkefni, Upphaf íslenskrar ritmenningar, farið vel af stað. Ég er ekki í vafa um að það mun verða mikils vísir. Oddafélagið hefur kynnt mér metnaðarfullar hugmyndir um uppbyggingu mennta- og fræðaseturs hér á staðnum. Þar er gert ráð fyrir því að staðurinn verði í senn miðstöð í heimabyggð en laði einnig til sín fræða- og listafólk hvaðanæva af landinu og heiminum öllum. Ég hef rætt þessar hugmyndir við mennta- og menningarmálaráðherra og tel að þetta séu hugmyndir sem eigi að vinna áfram og byggja um leið á þeim grunni sem lagður hefur verið með RÍM-verkefninu.

Kæru gestir.

Á síðasta þjóðhátíðardegi gerði ég að umfjöllunarefni hinn fjölbreytta vefnað sem myndar íslenskt samfélag. Alla þræðina sem gera það að verkum að við eigum fjölbreytt, gott og sterkt samfélag þar sem við leitumst við að tryggja öllum gott líf og jöfn tækifæri. Í heimsfaraldrinum hafa þessir þræðir orðið okkur öllum sýnilegir. Fólk sem allt í einu varð einangrað frá umheiminum, fann áþreifanlega fyrir því að allt sem hver og einn gerði – skipti okkur öll máli. Allt í einu vorum við – sem búum í þessu samfélagi – tengd áþreifanlegum böndum í einum vefnaði, ofin saman í samfélaginu okkar. Þess vegna þreytist ég ekki á að segja að þó að undanfarnir sextán mánuðir hafi verið erfiðir hafa þeir líka verið lærdómsríkir – einmitt vegna þess að þeir hafa minnt á að samfélag er ekki aðeins orð heldur okkar aðferð við að vera til ásamt öðrum. Og hvernig við náum árangri þegar við stöndum saman og hver og einn leggur sitt af mörkum.

Ein ástæða þess að íslenski samfélagsvefnaðurinn reyndist sterkur þegar á reyndi er sú staðreynd að við eigum þessar rætur – hér í Odda og á öðrum þeim stöðum um landið allt sem byggja okkar sameiginlega minni. Hér voru stigin mikilvæg skref við mótun íslenskrar menningar og íslenskrar menntunar. Hér voru skrifuð mikilvæg rit og teknir upp nýir miðlar til að miðla íslensku samfélagi og íslenskri þjóðarsögu til fólksins í landinu.

Þannig að þegar spurt er hvaða erindi staðir eins og Oddi eiga við okkur í samtímanum – leikur ekki nokkur vafi á því að staðir skipta máli til að rækta og næra þessar rætur. Það skiptir máli að fjalla um þessa staði, rannsaka þá og sögu þeirra og miðla þeim rannsóknum til sem flestra. Slíkir þræðir mynda rammann utan um samfélagsvefnaðinn og innan þeirra fléttum við saman ný mynstur og nýja liti eftir því sem samfélagið breytist og þroskast.

Menntun og rannsóknir eru undirstaða þess að við getum tekist á við allar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Heimsfaraldurinn sýndi rækilega hvers vísindin eru megnug þegar fólk tekur höndum saman. Bólusetning gegn covid-19 er ekkert annað en sigur þekkingar og vísinda og líklega hefði engan órað fyrir því að sextán mánuðum eftir að veiran gerði vart við sig hér á landi væru tæp 80 prósent komin með fyrstu sprautu. Og vísinda- og rannsóknarstarf byggist á öflugu menntakerfi þar sem allir eiga jöfn tækifæri til að þroska hæfileika sína, afla sér þekkingar og verða meira maður – eins og Páll Skúlason orðaði það í frægri grein sinni um menntun.

Með menntun og vísindum munum við líka geta tekist á við aðrar þær stóru áskoranir sem við stöndum frammi fyrir – loftslagsvána þar sem við þurfum ekki aðeins að draga úr losun og binda meira kolefni heldur að tryggja réttlát umskipti fyrir okkur öll – tæknibyltinguna þar sem við þurfum að tryggja að tæknin verði þjónn okkar en ekki húsbóndi – þá staðreynd að við erum að eldast sem samfélag og munum þurfa að takast á við þær breytingar.

Allar þessar áskoranir þarf að takast á við með jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi – vegna þess að það er rétt að gera það þannig og það er líka gott. Ég er ekki í nokkrum vafa um að mikilvægur þáttur í velgengni Íslands í heimsfaraldrinum er sú staðreynd að Ísland er jafnaðarsamfélag og Ísland er velferðarsamfélag. Slík samfélög eru best í stakk búin til að takast á við áskoranir samtíðar og framtíðar og það er verkefni okkar stjórnmálamanna að tryggja að það séu leiðarljós okkar í öllu sem við gerum. Jöfn tækifæri til menntunar skapa fleiri góða vísindamenn, fleiri störf og aukin lífsgæði.

Það fengu ekki allir sömu tækifæri og Sæmundur fróði á sínum tíma. Fátækt fólk fékk ekki að nema hér í Odda. Og nýjungar í ritmáli voru einkamál karlmanna framan af. Konur sem áður höfðu sagt sögur og farið með kvæði fengu fæstar aðgang að nýjum miðlum fyrr en síðar. Sem betur fer hefur samfélagið þróast í rétta átt og Ísland stendur að mörgu leyti framarlega í jöfnuði og jafnrétti. Og framtíðarsýn Oddaverja samtímans er að Oddi verði staður fyrir okkur öll, þar sem við öll erum velkomin og getum öll kynnst sögunni. Og getum líka dregið andann djúpt, fjarri öllum skarkala samtímans sem finna má í öllum herbergjum alnetsins, og hlustað á nið aldanna hér á Rangárvöllum. Ég er stolt af því verkefni sem fór af stað til að rannsaka ritmenningu miðalda – og bjartsýn á að hér í Odda verði mennta- og fræðisetur að veruleika, áfangastaður fyrir okkur öll og mikilvæg miðja fyrir Rangæinga alla.

 

spot_img

MEST LESIÐ: