HeimFréttir og greinarHöfðingleg bókagjöf til Sæmundarstofu í Odda

Höfðingleg bókagjöf til Sæmundarstofu í Odda

Dr. Helgi Þorláksson færði Oddafélaginu 1.500 fræðibækur til handa Sæmundarstofu.

Helgi Þorláksson prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ kom færandi hendi í Odda í dag er hann afhenti Oddafélaginu um 1.500 fræðibækur úr bókasafni sínu.

Þessi mikilvægi bókakostur verður  grunnurinn í bókhlöðu Sæmundarstofu. Safnið verður til að byrja með vistað í Ekru, vinnustofu í Odda. Ekru geta rithöfundar og fræðimenn tekið á leigu til að iðka rit- og fræðistörf, umvafðir fagurri náttúru og andblæ miðalda á upphafsstað íslenskrar ritmenningar.

Áður hafði Oddafélagið fengið að gjöf veglegan bókakost frá Freysteini Sigurðssyni jarðfræðingi, sem ánafnað Oddafélaginu hluta af safni sínu.

Með þessu höfðinglega framlagi Helga Þorlákssonar eflist fræðibókasafnið svo um munar, ekki síst í miðaldasögu og miðaldafræðum, en miðaldir voru jú stórveldistími Oddaverja. Oddafélagið þakkar Helga þessa stórmannlegu gjöf, sem er í höfðinglegum anda þeirra manna er sátu Odda á fyrri tíð.

Sæmundarstofa er heiti verkefnis sem Oddafélagið er með í undirbúningi í víðtæku samstarfi við fjölda aðila og miðar að uppbyggingu og endurreisn Oddastaðar sem menningar- og fræðaseturs.

spot_img

MEST LESIÐ: