HeimFréttir og greinarHalldór í Holti styður uppbyggingu í Odda

Halldór í Holti styður uppbyggingu í Odda

Séra Halldór í Holti hvatti til sameiningar sveitarfélaga og samvinnu um uppbyggingu í Odda.

Áform Oddafélagsins um uppbyggingu menningar- og fræðaseturs í Odda, ásamt nýrri Oddakirkju, fengu öflugan stuðning séra Halldórs í Holti á dögunum.

Að loknum fyrirspurnum eftir erindi Óskars Guðmundssonar, sagnfræðings og rithöfundar, sem haldið var í Oddakirkju þann 12. mars sl., kvaddi séra Halldór sér hljóðs og hélt þrumuræðu um nauðsyn samvinnu í Rangárþingi, ekki síst þegar málefni Odda væru annars vegar. Hann brýndi menn til að stefna fullum fetum að sameiningu Rangárþings eystra og ytra, því þannig næðist fram meiri styrkur og sóknarafl í héraði og einnig gagnvart ríkisvaldinu.

Séra Halldór minnti menn á að þeirri merku og ríkulegu menningararfleifð, sem þessu héraði hefði fallið í skaut, fylgdi einnig mikil ábyrgð, sem menn ættu að axla af fullum myndugleika, og sjá til þess að hinni miklu sögu mannlífs og menningar miðalda, sem sprottinn er úr þessum jarðvegi, verði lyft til vegs og virðingar.

Þá nefndi hann hugmyndir Oddafélagsins um uppbyggingu menningar- og fræðaseturs í Odda í nafni Sæmundar Sigfússonar og sagði afar brýnt að allir legðust á eitt um að þær hugmyndir yrðu að veruleika til heilla héraðinu og landinu öllu til framtíðar.

Séra Halldór er kraftmikill og snjall ræðumaður og vöktu orð hans feikna viðbrögð viðstaddra, sem klöppuðu honum lof í lófa. Það er ómetanlegt fyrir Oddafélagið að eiga svo öflugan og einlægan stuðningsmann sem séra Halldór í Holti, fyrir þá vegferð sem framundan er.

spot_img

MEST LESIÐ:

Heilagur Nikulás

6. desember er ártíðardagur heilags Nikulásar, en Oddakirkja var honum vígð af Sæmundi Sigfússyni, að því er fornar heimildir greina.

Halldór í Holti styður uppbyggingu í Odda

Séra Halldór í Holti hvatti til sameiningar sveitarfélaga og samvinnu um uppbyggingu í Odda.