HeimFréttir og greinarFréttapistill desember 2018

Fréttapistill desember 2018

Kæri Oddafélagi

Árið sem nú rennur brátt sitt skeið hefur verið afar viðburðaríkt hjá okkur í Oddafélaginu. Þar ber hæst ótrúlega magnað upphaf fornleifarannsókna í Odda en strax í fyrstu skrefum þeirra kom staðfesting þess sem marga grunaði – fornar og merkar minjar hvíla um allt á hinni sögustóru fold.

Oddarannsóknin
Það voru vissulega vonbrigði að umsókn Fornleifastofnunar um rannsóknarstyrk til Oddarannsókna 2018-2020 hlaut ekki brautargengi þetta árið hjá stjórn Minjasjóðs. Engu mynd2 frb d18að síður ákvað Oddafélagið í samráði við Fornleifastofnun að hefjast handa við fyrsta hluta verkefnaáætlunarinnar í byrjun júní 2018. Ákveðið var að gera prufuskurði á tveimur mjög áhugaverðum stöðum í nágrenni við Langekru við Odda. Það skipti engum togum að strax á fyrstu dögum rannsóknanna komu fornleifafræðingar niður á stórmerkar minjar sem svo sannarlega gefa verkefninu byr undir báða vængi og sýna svo ekki verður um villst að nauðsynlegt er að halda áfram. Staðfest hefur verið með rannsóknum á m.a. gjóskulögum að hér er um að ræða elstu manngerðu hella á Íslandi sem þekktir eru.

Oddahátíð
Þann 1. Júli 2018 var efnt til Oddahátíðar í Odda á Rangárvöllum en um langt skeið hefur Oddafélagið haldið svokallaðar Oddastefnur ýmist vor eða haust. En að þessu sinni var mynd3 frb d18ákveðið að slá upp hátíð í Odda sjálfum um hásumarið. Veður var gott og margmenni í Odda og hátíðin heppnaðist geysilega vel. Meginstef Oddahátíðar var  fornleifarannsóknirnar sem hófust undir forystu Kristborgar Þórsdóttur fornleifafræðings fyrr á árinu. Reistar voru miklar tjaldbúðir í Odda fyrir gesti hátíðarinnar og þeim boðið til hádegisverðar í anda miðalda. Um framreiðslu sá Sölvi B. Hilmarsson úr Skálholti ásamt kvenfélagi Oddakirkju. Dagskrá var í kirkju og gengið var um Oddastað, á Gammabrekku og að hinum nýuppgötvaða manngerða helli frá 10 öld við Langekru.

Fornleifaskóli unga fólksins
Tímamót urðu nú í haust er fornleifaskóli unga fólksins hóf göngu sína í samstarfi Oddarannsóknarinnar og allra grunnskóla í Rangárvallasýslu. Ef marka má fyrstu skrefin verður þetta gríðarlega spennandi og mikilvægt verkefni. Grunnhugmyndin er að efla skólastarf í héraði en á sama tíma að taka okkar merkasta sögustað í fangið með táknrænum hætti og með þrótti hinnar ungu kynslóðar. mynd4 frb d18Fyrsti nemendahópurinn til að taka þátt í fornleifaskólanum var sjöundi bekkur Helluskóla en áður en þessu skólaári lýkur munu allir sjöundu bekkingar frá Laugalandi og Hvolsvelli einnig koma í fornleifaskólann. Hugmyndin er að þróa verkefnið stig af stigi, læra af reynslunni og passa upp á að saman fari mikilvæg og áhugaverð fræðsla og góð samvera. Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkti verkefnið með myndarlegum hætti.

mynd5 frb d18

Fróðasetur í Odda
Sveitarfélagið Rangárþing ytra í samstarfi við Landgræðslu ríkisins óskaði eftir að yfirtaka ríkisjörðina Langekru við Odda og kaupa íbúðarhús jarðarinnar þegar jörðinni var skilað úr ábúð á síðasta ári. Þetta gekk eftir og fjármála- og efnahagsráðuneytið samþykkti að umráð jarðarinnar Langekru færðust til Landgræðslunnar í tengslum við endurheimt votlendis í samræmi við sóknaráætlun í loftlagsmálum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið samþykkti jafnframt að selja sveitarfélaginu Rangárþingi ytra íbúðarhúsið í Langekru á skilgreindri 4 ha lóð. Jafnframt tók sveitarfélagið að sér að farga úr sér gengnum og ónýtum útihúsum á jörðinni. Þessu verki lauk með sóma nú í haust og eru því öll útihúsin horfin nema ákveðið var að halda eftir hluta af hlöðu sem fylgdi fjósinu. Þessa byggingu er hugmyndin að endurgera sem grófa geymslu í tengslum við fornleifarannsóknirnar og við lagfæringar á íbúðarhúsinu í Langekru. Þá eru hugmyndir um að Langekruhlaðan geti nýst sem miðaldaskáli fyrir samkomur, veislur og sýningar. Kaupin á íbúðarhúsinu voru gerð á þeim forsendum að styðja við framtíðaruppbyggingu og endurreisn Oddastaðar. Jafnframt lýsti sveitarfélagið yfir vilja til að rekstur, viðhald og nýting aðstöðunnar verði í höndum Oddafélagsins sem vinnur að framgangi uppbyggingarstarfsins og hefur sýnt málinu mikinn áhuga. Þarna er því kominn grunnurinn að Fróðasetri í Odda en íbúðarhúsið á Langekru mun nýtast sem aðstaða fyrir m.a. fornleifafræðinga sem starfa munu að Oddarannsókninni á næstu árum; aðstaða fyrir innlenda sem alþjóðlega námshópa til skemmri dvalar vegna rannsóknaverkefna sem tengjast Oddarannsókninni; aðstaða vegna kynningar á sögu höfuðbólsins Odda og hjáleigna og aðstaða vegna Fornleifaskóla barnanna sem hóf göngu sín nú í haust. Almennt er hugmyndin sú að í Langekru verði þessi nauðsynlega aðstaða á svæðinu til að auðvelda framgang þeirra verkefna sem tengjast „Endurreisn Oddastaðar“. Íbúðarhúsið er lítið hlýlegt bárujárnshús, um 90 fm átveimur hæðum, og er byggt árið 1950. Eitt og annað þarfnast viðhalds og endurnýjunar s.s. gluggar og innréttingar auk þess sem ytra byrði og umhverfi þarf að taka í gegn. Á neðri hæð má koma fyrir góðri svefn- og vinnuaðstöðu auk eldhúss og á efri hæð má auðveldlega koma fyrir einföldu svefnpokaplássi fyrir minni hópa. Viðhaldsframkvæmdir eru hafnar enda stefnan að húsið nýtist strax næsta vor fyrir vísindamenn sem taka þátt í Oddarannsókninni auk þess að nýtast fyrir Fornleifaskóla unga fólksins í samvinnu við alla grunnskólana í Rangárvallasýslu. Fjárstyrkur frá Héraðsnefnd Rangæinga er lykillinn að þessum framkvæmdum.

mynd6 frb d18

Aðalfundur Oddafélagsins var haldinn nú í byrjun desember og þar voru kosin í stjórn félagsins þau Ágúst Sigurðsson, Árni Bragason, Bergþóra Þorkelsdóttir, Elína Hrund Kristjánsdóttir, Erna Sigurðardóttir, Friðrik Erlingsson og Helgi Þorláksson.
Að lokum hvet ég ykkur til að segja vinum og kunningjum frá starfi Oddafélagsins – það vantar fleiri öfluga liðsmenn. Með því að leggja rækt við Oddastað erum við að halda á lofti sögu okkar – hlúa að vöggu menningar og einu af okkar þekktasta höfuðbóli.

Bestu kveðjur

Ágúst Sigurðsson

spot_img

MEST LESIÐ:

Hugmynd í þróun: Sæmundarstofa og Oddakirkja

Þegar um svo merkan og mikilvægan þjóðmenningarstað sem Odda er að ræða verður að vanda til verka og hugsa til framtíðar.