HeimFréttir og greinarFrétt Stöðvar 2 um opnun Oddabrúar

Frétt Stöðvar 2 um opnun Oddabrúar

Hið forni höfuðstaður, Oddi á Rangárvöllum, er aftur kominn í alfaraleið með nýrri brú yfir Þverá, sem styttir verulega leiðina milli Rangárvalla og Vestur-Landeyja.

Oddi á Rangárvöllum í þjóðbraut á ný með brú til Vestur-Landeyja

Kristján Már Unnarsson skrifar 
Bílar aka yfir Oddabrú að vígsluathöfn lokinni.
Bílar aka yfir Oddabrú að vígsluathöfn lokinni.ARNAR HALLDÓRSSON

Hið forni höfuðstaður, Oddi á Rangárvöllum, er aftur kominn í alfaraleið með nýrri brú yfir Þverá, sem styttir verulega leiðina milli Rangárvalla og Vestur-Landeyja. Brúin er 93 metra löng og reist í samstarfi sveitarfélagsins Rangárþings ytra og Vegagerðarinnar.

Formleg opnun brúarinnar í gær markaði jafnframt upphaf Oddahátíðar. Meðal viðstaddra voru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2.

Frá Oddahátíð í gær. Hátíðartjaldi hafði verið slegið upp þar sem boðið var upp á tónleika, veitingar og ræðuhöld.ARNAR HALLDÓRSSON

Eftir að bílaöld gekk í garð og menn hættu að fara yfir fljótin á hestum varð það hlutskipti Odda að verða endastöð á botnlanga, þar til núna. Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, sagði langþráð baráttumál í höfn og hrósaði meðal annars verktakanum, vinnuflokki Mikaels ehf. frá Hornafirði.

„Hvílíkir dugnaðarforkar. Við höfum bara aldrei séð annað eins. Og eru þó Rangæingar duglegir að eðlisfari,“ sagði Ágúst.

Sveitarstjórinn afhenti síðan Bergþóru Þorkelsdóttur vegamálastjóra brúna og veginn. Verkinu lýkur þó ekki fyrr en í haust með malbikun vegarins.

Vígsluathöfnin fór fram við brúarsporðinn Landeyjamegin.ARNAR HALLDÓRSSON

Samgönguráðherra nefndi sem dæmi að fyrir íbúa í Landeyjum og á Bakkabæjum styttist leiðin til Hellu um 15 kílómetra. Hann sagði þetta langþráða og þarfa öryggistengingu sem myndi þjóna sem flóttaleið í Kötluhlaupum fyrir íbúa í Rangárþingi.

Sóknarpresturinn í Odda, Elína Hrund Kristjánsdóttir, blessaði að lokum mannvirkið. Gestir héldu síðan til Oddahátíðar þar sem þrjátíu ára afmæli Oddafélagsins var fagnað.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

spot_img

MEST LESIÐ:

Hugmynd í þróun: Sæmundarstofa og Oddakirkja

Þegar um svo merkan og mikilvægan þjóðmenningarstað sem Odda er að ræða verður að vanda til verka og hugsa til framtíðar.