Oddahátíð heppnaðist í alla staði frábærlega í blíðskaparveðri, laugardaginn 3. júlí. 300 m2 tjald með 80m2 sviði var risið á bílastæðinu við Oddakirkju. Tjaldið hlaut nafnið „Tónlistarhöll Rangárþings,“ því þótt höllinni væri tjaldað til einnar nætur, var henni ætlað að þjóna sem tónleikasalur fyrir fyrstu opinberu tónleika Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands, með Karlakór Rangæinga, Kvennakórnum Ljósbrár, félögum úr Kammerkór Rangæinga og Eyjólfi Eyjólfssyni tenórsöngvara undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, hljómsveitarstjóra. Þetta var óumdeilanlega stærsti tónlistarviðburður ársins á Suðurlandi.
Hátíðin hófst við Oddabrú kl. 10.20 þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, opnaði formlega nýju brúnna yfir Þverá, ásamt Berþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar og Ágústi Sigurðssyni, sveitarstjóra Rangárþings ytra. Meðal boðsgesta voru Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og frú Kristín Þórðardóttir, sýslumaður á Suðurlandi. Sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir, sóknarprestur í Odda fór með blessunarorð.
Brúin er langþráð samgöngubót en hún tengir Oddahverfi við Bakkabæi sunnan Þverár og Landeyjar og styttir akstursleiðir íbúa um 15 km. Oddabrú er mikilvæg fyrir öryggi íbúa ef til náttúruhamfara kemur og þörf er á skyndirýmingu á svæðinu. En hún eykur líka möguleika íbúa og ferðafólks með fjölbreyttari möguleikum til ferðaþjónustu. Með Oddabrú er höfuðbólið Oddi aftur komið í alfaraleið eins og á dögum Oddaverja og gerir staðinn mun aðgengilegri, bæði fyrir íbúa að sækja kirkju og ferðafólk að kynna sér hinn merka sögustað.
Eftir opnun Oddabrúar gengu gestir til Oddakirkju þar sem sr. Elína stýrði helgistund. Að henni lokinni bauð Kvenfélag Oddakirkju upp á kaffi og veitingar í anddyri „Tónlistarhallarinnar.“ Kvenfélagið sýndi Oddafélaginu mikla rausn og höfðingsskap, því þær ákváðu að gefa félaginu alla innkomu af sölu veitinga, til styrktar undirbúningi að uppbyggingu menningar- og fræðaseturs í Odda, Sæmundarstofu. Það hafa alltaf verið rausnarlegir höfðingjar í Odda og Kvenfélag Oddakirkju sver sig svo sannarlega í ættina. Ágúst Sigurðsson afhenti Elvu Björk Árnadóttur, formanni Kvenfélags Oddakirkju, blómvönd í þakklætisskyni.
„Tónlistarhöllin“ var þétt setin rúmlega 200 gestum auk þeirra sem stóðu í anddyri og fyrir utan tjaldið. Friðrik Erlingsson, verkefnastjóri Oddafélagsins, var kynnir, en Ágúst Sigurðsson, formaður Oddafélagsins, setti hátíðina með snarpri hvatningarræðu sem lauk með þessum orðum: „Látum þennan fallega dag marka tímamót varðandi uppbyggingu í Odda – hálfnað er verk þá hafið er!“
Ágúst afhenti sérstökum boðsgestum og heiðursfélögum Oddafélagsins, sem viðstaddir voru, þeim Þór Jakobssyni og Sveini Runólfssyni, 30 ára afmælismerki félagsins. Í ræðu sinni þakkaði Ágúst sérstaklega Þór Jakobssyni, fyrrverandi formanni, fyrir frumkvöðlastarf hans og fyrir að halda nafni Odda á lofti.
Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, sagði frá tengslum að fornu og nýju milli höfuðbólanna tveggja, Skálholts og Odda, og lagði áherslu á mikilvægi samstarfs og samvinnu þessara tveggja merku sögustaða í framtíðinni.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kom víða við í stórskemmtilegri ræðu þar sem hún fór yfir sögu Odda og Oddaverja og upphaf mennta og bókmenningar í landinu. Hún afsakaði að vísu að ræðan væri ef til vill full ítarleg, því hún hafði gert þau mistök að hringja í bróður sinn, miðaldafræðinginn! En áheyrendum var engu að síður vel skemmt.
Katrín lagði áherslu á að Oddi væri einn þeirra staða sem tilheyra sameiginlegum minningastöðum þjóðarinnar, líkt og Skálholt og Þingvellir, Hólar og Reykholt. Hún ræddi um tengsl mennta og stjórnmála á miðöldum og þá nýsköpun sem fólst í hinu ritaða máli, þar sem valdið og kunnáttan í meðferð hins nýja miðils, bókarinnar eða hins ritaða texta, gat ráðið úrslitum varðandi átök á stjórnmálasviðinu. Að lokum lýsti Katrín því yfir hún væri bjartsýn á að uppbygging menningar- og fræðaseturs í Odda yrði að veruleika, sem áfangastaður fyrir alla Íslendinga og mikilvæg miðja fyrir Rangæinga alla.
Þá var komið að fyrstu opinberu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands. Hljóðfæraleikarar stigu á svið ásamt hljómsveitarstjóra, Guðmundi Óla Gunnarssyni, og var ákaflega vel fagnað. Hljómsveitin lék fyrst Hátíðarforleik eftir Guðmund Óla, en það var frumflutningur verksins sem Guðmundur Óli samdi sérstaklega í tilefni Oddahátíðar, en auk þess útsetti Guðmundur Óli öll lögin sem hljómsveitin lék.
Eyjólfur Eyjólfsson, tenórsöngvari, söng síðan þrjú einsöngslög með hljómsveitinni, Í fögrum dal, eftir Emil og Jón Thoroddsen; Karl sat uppi á kletti, eftir Jórunni Viðar og Halldóru B. Björnsson, og Stormar eftir Sigvalda Kaldalóns og Stein Sigurðsson, en Steinn var fæddur á Fagurhóli í Austur Landeyjum árið 1872. Söngur Eyjólfs var ákaflega hrífandi, bæði kraftmikill, ljúfsár og ljóðrænn og snerti við hverju hjarta.
Kvennakórnum Ljósbrá var ákaflega fagnað þegar þær stigu á svið, klæddar glæsilegum íslenskum búningum. Þær fluttu tvö lög með hljómsveitinni: Vikivaka eftir Valgeir Guðjónsson við kvæði Jóhannesar úr Kötlum og Næturljóð úr Fjörðum eftir Böðvar Guðmundsson.
Þá steig Karlakór Rangæinga á svið, einnig glæsilega klæddir þjóðbúningum. Þeir fluttu fyrst Vorgöngu eftir kórfélagann Jens Sigurðsson við texta eftir Jón Ólafsson frá Kirkjulæk, kæran kórfélaga sem lést langt um aldur fram. Síðan fluttu þeir hið kraftmikla lag Rangárþing eftir Björgvin Þ. Valdimarsson og Sigurjón Guðjónsson í hreint magnaðri hljómsveitarútsetningu Guðmundar Óla.
Þá var komið að seinni frumflutningi tónleikanna, en það var lag Gunnars Þórðarsonar við kvæði séra Matthísar Jocumssonar: Á Gammabrekku. Oddafélagið leitaði til Gunnars að gera voldugt kórverk við þetta stórkostlega kvæði í tilefni 30 ára afmælis Oddafélagsins og tónskáldið brást vel við því og skilaði verki sínu með glæsibrag. Hér sameinuðust kórarnir báðir og við bættust félagar úr Kammerkór Rangárþings auk Eyjólfs Eyjólfssonar, tenórsöngvara. Flutningurinn tókst frábærlega vel og „Tónlistarhöllin“ nötraði þegar þessi kraftmikli hyllingarbragur var fluttur af hljómsveitinni og nærri 100 manna blönduðum kór.
Tvær blómameyjar úr Rangárþingi eystra, klæddar sérlega fallegum þjóðbúningum, þær Helga Dögg og Bryndís Halla Ólafsdætur, afhentu lykilfólki tónleikanna fagra blómvendi: hljómsveitarstjóra, konsertmeistara, kórstjórnendum, formanni Kammerkórs og Eyjólfi Eyjólfssyni.
Fögnuður áheyranda og aðstandenda var svo sannarlega einlægur í lok dagskrár. Þessir frábæru tónleikar sýndu svo ekki verður um villst að það skortir ekki hæfileikafólk í héraðið. Það sem vantar er tónleikahús: ný 400 sæta Oddakirkja sem er sérhönnuð sem tónleikahús, ásamt Sæmundarstofu, menningar- og fræðasetri fyrir almenning jafnt og fræðimenn.
Það má segja með sanni að menning er fyrst og fremst orka, sem áhugamenn og starfandi listamenn virkja og senda út í samfélagið þar sem hún heldur áfram að gefa og skapa. Enn þann dag í dag búum við að orku þeirra manna sem voru upphafsmenn íslenskrar bókmenningar fyrir 900 árum síðan. Sæmundarstofa og ný Oddakirkja verða öflugt orkuver fyrir héraðið og landið allt þegar fram líða stundir.
Stjórn Oddafélagsins er afar þakklát fyrir frábæra aðsókn á þennan merka viðburð sem sannarlega markar tímamót á mörgum sviðum í Rangárþingi. Samstarf og samvinna fólks úr öllum sveitarfélögunum var einstök, bæði við undirbúning og alla framkvæmd hátíðarinnar. Þótt sveitarfélögin séu þrjú, eins og er, þá eru íbúarnir einhuga og reiðubúnir til að leggja mikið á sig og vinna saman að þeim hlutum sem skipta okkur öll máli.
(Ljósmyndir: Jóna Sigþórsdóttir. Sigurður Bogi Sævarsson. Ásmundur Friðriksson. Geir Guðsteinsson.)