HeimFréttir og greinarNýjar tilgátur um Njálu

Nýjar tilgátur um Njálu

Flest öndvegisrit okkar frá miðöldum eru sprottin úr Reykholtsskólanum - og líklega sjálf Njála okkar Rangæinga.

Óskar Guðmundsson, sagnfræðingur og rithöfundur, fékk frábærar viðtökur þegar hann hélt erindi sitt í Oddakirkju, laugardaginn 12. mars. Óskar fjallaði um tengsl Odda, Holts undir Eyjafjöllum og Reykholts í Borgarfirði á miðöldum.

Lárus Ágúst Bragason og Ísólfur Gylfi Pálmason.

Sérstaða Óskars sem fræðimanns er ekki síst gríðarleg þekking hans á ættfræði og ættartengslum persóna, sem í augum leikmanna væru sumar hverjar varla meira en nafnið tómt, ef ekki væri hægt að tengja þær við þekkta einstaklinga eða ættir, og þar með sjá hvar þær falla inn í net hagsmuna og valda.

Óskar rakti margvísleg menningartengsl þessara þriggja höfuðstaða, Holts, Odda og Reykholts, og rökstuddi tilgátur sínar um sérstakan bókmenntaskóla á miðöldum, Reykholtsskólann, og hvernig Njála, eins og aðrar gullaldarbókmenntir, eru af sömu rót – og viðraði að auki tilgátu um ritstjóra eða höfund Njálu – Egil Sölmundarson.

Reykholtsskólinn samanstóð af hópi lærðra manna sem þar voru við nám og störf á mismunandi tíma, eins og t.d. Ólafi hvítaskáldi, Styrmi fróða Kárasyni, Sturlu Þórðarsyni ofl., undir stjórn ritstjóra, sem í upphafi var Snorri Sturluson.

Össur Skarphéðinsson, Árni Óskarsson og Guðbjörg Erla Benjamínsdóttir.

Egill Sölmundarsonar tók við ritstofu Snorra, móðurbróður síns, um miðja 13. öld, en hefur lært og starfað þar frá unga aldri. Egill var fæddur um 1205, sonur Helgu, systur Snorra, og Sölmundar, er austmaður var kallaður. Egill var staðarhaldari og súbdjákn í Reykholti til dauðadags.

Eftir kaffihlé spunnust líflegar umræður og afar góður rómur var gerður að erindi Óskars og rökstuðningi hans. Þótti mörgum sem hinar frægu „staðháttavillur“ í Njálu væru skiljanlegri ef í hlut átti maður sem ekki væri alin upp í héraðinu og studdist að stærstum huta við munnmælasagnir eða styttri sagnaþætti.

Séra Halldór í Holti, Elvar á Skíðbakka og Arndís á Velli.

Benti Óskar einmitt á dæmið um Höskuld Njálsson, frilluson Njáls, sem fór daglega frá Bergþórshvoli og um garð á Sámsstöðum að búi sínu í Holti (það Holt hefur verið í grennd við Þríhyrning). Reiðleiðin frá Bergþórshvoli að Sámstöðum er slík að þar hefði allur dagurinn farið. Hér hefur augljóslega maður ritað sem ekki var kunnur staðháttum, fjarlægðum eða leiðum. Óskar benti einnig á að ekki væri víst að hinn sagnfræðilegi raunveruleiki að baki sögunni ætti við Bergþórshvol í Landeyjum, heldur mun frekar þann bæ er nú heitir Efri-Hvoll. Fara þá ferðir þeirra Njáls og Gunnars hvors til annars að verða trúverðugri ef rétt rúm bæjarleið var í raun á milli heimila þeirra, sem og ferðir Höskuldar Njálssonar um garð á Sámsstöðum.

Óskar sagði að Reykholtsskólinn væri arftaki skólans í Odda, þar sem Snorri ólst upp og lærði hin margvíslegu fræði, lög, sögur og sagnakvæði, mannfræði og konungasögur, sem lögðu grunninn að hinni öflugu ritstofu hans í Reykholti, þaðan sem flest öndvegisrit okkar frá miðöldum eru sprottin – og líklega sjálf Njála okkar Rangæinga.

 

 

spot_img

MEST LESIÐ:

Hugmynd í þróun: Sæmundarstofa og Oddakirkja

Þegar um svo merkan og mikilvægan þjóðmenningarstað sem Odda er að ræða verður að vanda til verka og hugsa til framtíðar.