HeimFréttir og greinarNý vefsíða og merki Oddafélagsins

Ný vefsíða og merki Oddafélagsins

Velkomin á nýja heimasíðu Oddafélagsins

Ný vefsíða Oddafélagsins hefur nú verið opnuð og nýtt merki félagsins tekið í notkun. Merkið er hannað af Finni Malmquist, grafískum hönnuði. Markmið Oddafélagsins er að varpa ljósi á manninn Sæmund Sigfússon, og þess vegna var valið að styðjast við vangamynd Sæmundar af styttu Ásmundar Sveinssonar, myndhöggvara: Sæmundur á selnum. Þjóðsagan um Sæmund á selnum er vissulega tilbúningur; ævaforn evrópsk flökkusaga, sem einhvern tímann hefur borist til Íslands og tengst nafni Sæmundar.

En þrátt fyrir það er hún afar táknræn fyrir starf Sæmundar hér á landi, eftir að hann kemur heim úr námi. Hann hefur nýja þekkingu í farteskinu sem hann miðlar og nýtir einnig til að móta samfélagið upp á nýtt um aldamótin 1100. Þegar Sæmundur lemur Kölska í höfuðið með Saltaranum í þjóðsögunni má segja að hann sé að berja fáfræðina og myrkrið með þekkingunni og ljósinu. Með þetta í huga voru einkunnarorð félagsins valin, Þekkingin sigrar myrkrið, og í merki félagsins eru þau að sjálfsögðu rituð á latínu, líkt og Sæmundur hefði sjálfur gert: Sapientia tenebras vincit.

Á þessari nýju vefsíðu má finna greinargóðar upplýsingar um verkefni félagsins undir flipanum Verkefnin okkar. Ef þú smellir á flipann Fréttir og greinar birtast allar fréttafærslur aftur í tímann. Við vonum að félagsmenn og aðrir gestir verði ánægðir með nýju síðuna og nýti hana til að koma upplýsingum um félagið á framfæri. Vefurinn er unnin af Ásgrími Sverrissyni. Oddafélagið færir þeim Finni Malmquist og Ásgrími Sverrissyni allra bestu þakkir fyrir frábæra vinnu og einstaklega ánægjulegt samstarf.

spot_img

MEST LESIÐ:

Hugmynd í þróun: Sæmundarstofa og Oddakirkja

Þegar um svo merkan og mikilvægan þjóðmenningarstað sem Odda er að ræða verður að vanda til verka og hugsa til framtíðar.