Verkefni Oddafélagsins

Oddafélagið er félag áhuga- og hugsjónafólks um endurreisn Oddastaðar sem menningar- og fræðaseturs og sem menningarmiðju á Suðurlandi, þar sem bæði leikir og lærðir geta sótt fræðslu og skemmtun og upplifað hina merku sögu staðarins sem nær yfir meira en þúsund ár.

Stærsta verkefni Oddafélagsins er vinna að því að ný Oddakirkja rísi í tengslum við menningar- og fræðasetrið Sæmundarstofu. Kirkjan þarf að rúma 4 - 500 manns og vera hönnuð fyrir tónlistarflutning svo hún geti bæði þjónað sem kirkjumiðstöð héraðsins fyrir stórar athafnir og hátíðir kirkjuársins en einnig sem vandað tónlistarhús.

Hér fyrir neðan má kynnast helstu verkefnum Oddafélagsins, sem eru ýmist angi af eða styðja við meginverkefnið, uppbyggingu Sæmundarstofu og nýrrar Oddakirkju.

Oddarannsóknin / RÍM

Oddarannsóknin skiptist í fornleifarannsóknir í Odda undir stjórn Kristborgar Þórsdóttur hjá Fornleifastofnun Íslands, og þverfaglega rannsókn á sögu Oddastaðar sem kirkju- og valdamiðstöðvar undir stjórn Helga Þorlákssonar.

Sæmundarstofa

Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur í nafni Sæmundar Sigfússonar, sem ásamt nýrri Oddakirkju mun gera Odda að menningarmiðju héraðsins á nýjan leik.

Sæmundur fróði og saga Odda

Saga Odda byrjar fyrst að rísa með heimkomu Sæmundar Sigfússonar úr námi í Frakklandi.
Oddi verður mikilvæg lærdóms- og valdamiðstöð
og einn auðugasti kirkjustaður landsins. Hér er farið yfir sögu Odda frá upphafi og sagt frá niðjum Sæmundar og Guðrúnar Kolbeinsdóttur.

Oddahátíðin

Oddahátíðin hefur jafnan verið haldin annað hvert ár þar sem velunnarar Oddafélagsins koma saman og gera sér glaðan dag í Odda. Hátíðin hefst á messu í Oddakirkju, veitingar eru í boði, stutt erindi flutt og tónlistaratriði lyfta andanum. Oddahátíð er haldin á laugardegi næst Þingmaríumessu, 2. júlí, og Seljumannamessu,
8. júlí, sem var kirkjudagur í Odda á miðöldum.

Ekra - vinnustofa og gisting

Langekra var ein af hjáleigum Oddastaðar og síðar sjálfstæð bújörð. Oddafélagið fékk bæjarhúsið til afnota og hefur unnið að endurnýjun þess í þeim tilgangi að skapa aðstöðu fyrir félagið og ýmsa starfsemi á vegum þess. Landgræðslan mun vinna að endurheimt votlendis á jörðinni í samræmi við sóknaráætlun í loftlagsmálum.

Fornleifaskóli unga fólksins

Fornleifaskólinn er þróunarverkefni sem Oddafélagið gengst fyrir í samvinnu við grunnskólana í Rangárþingi og Fornleifastofnun Íslands. Meðan á fornleifarannsókn stendur í Odda verður Fornleifaskólinn haldinn fyrir
7. bekk allra grunnskólanna ýmist að vori eða hausti.