Sæmundur fróði og saga Odda

UPPHAF ODDA
Sagt er að Þorgeir Ásgrímsson hafi keypt Oddalönd og gæti það hafa verið um 930. Þorgeir gekk að eiga Þuríði Eilífsdóttur. Þau áttu eina dóttur svo vitað sé, Helgu, sem giftist Svarti, syni Úlfs aurgoða Jörundarsonar.

Í Þorláks sögu helga er sagt frá nautahelli í Odda sem hrundi árið 1199 og fjöldi nauta drapst. Við upphaf fornleifarannsókna árið 2018 kom í ljós manngerður hellir sem var aldursgreindur til fyrri hluta 10. aldar og er því elsta uppistandandi mannvirki á Íslandi sem enn hefur verið aldursgreint. Hann gæti því hafa verið grafinn út á meðan Þorgeir og Þuríður bjuggu í Odda. Ábúendum hefur þótt hentugra að grafa hella í sandsteinshólana sem skepnuhús og jafnvel matbúr heldur en að reisa útihús. Til þessa verks hefur þurft töluverðan mannafla svo bóndinn í Odda hefur verið meira en meðalbóndi.

Samkvæmt ættartölu Oddaverja frá miðöldum var Svartur Úlfsson afkomandi danska fornkonungsins Haraldar hilditannar. Miklu þótti skipta að geta rakið ættar sínar til göfugra manna. Svartur varð langafi Sæmundar fróða.

ÆSKA SÆMUNDAR
Loðmundur Svartsson giftist Þorgerði Sigfúsdóttur. Hjónin lifa þá tíma þegar atburðir Njálssögu eiga að hafa átt sér stað í héraðinu. Feðgarnir Svartur og Loðmundur hafa líklega reist fyrstu kirkju í Odda.

Sigfús Loðmundarson telst fæddur um 1020. Hann gekk að eiga Þóreyju Eyjólfsdóttur. Sagt er að Sigfús hafi verið prestvígður og gæti þá hafa lært hjá Ísleifi Gissurarsyni, sem hafði skóla fyrir höfðingjasyni í Skálholti og varð biskup fyrstur Íslendinga árið 1056. Sæmundur fæddist sama ár. Sæmundur mun hafa lært lestur og skrift í heimahúsum og sat e.t.v. í skóla Ísleifs. Foreldrar hans hafa kunnað munnlegar sagnir af forfeðrunum. Loðmundur afi og Þorgerður amma hafa búið yfir ennþá eldri fróðleik um heiðin fræði og sögur.

Á uppvaxtarárum Sæmundar er kristni að festa sig í sessi hér á landi. Bænahús eru reist hjá mörgum bæjum og kirkjur á höfuðbólum.

NÁM SÆMUNDAR Í FRAKKLANDI
Nokkrum árum eftir innrás Normanna á England (1066) er Sæmundur sendur í skóla í Frakklandi. Með Frakklandi gæti verið átt við núverandi Norður-Frakkland eða Rínarhéruð og Móselsvæðið. Þetta var nokkru áður en formlegir háskólar voru stofnaðir að marki, en kennsla fór helst fram í dómkirkju- og klausturskólum.

Nám Sæmundar hefur verið hinar Sjö frjálsu listir, hið hefðbundna kennsluefni á miðöldum. Það samanstóð af þríveginum: latneskri málfræði, rökfræði og mælskulist – og fjórveginum: stærðfræði, flatarmálsfræði, stjörnufræði og tónlist. Elstu kirkjulög á Íslandi voru sett að ráði Sæmundar. Hann gæti því hafa afritað bækur og lagaskrár til að hafa með sér heim.

Sæmundur kom heim á árunum 1076-83, samkvæmt Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar. Heimkoma hans hefur þótt merkilegur atburður úr því Ari segir frá henni í sinni stuttu bók. Sæmundur tekur prestsvígslu, heldur skóla í Odda og kennir sveinum og er lofaður fyrir lærdóm af samtímamönnum sínum.

SÆMUNDUR OG KÖLSKI
Sæmundur reisti nýja kirkju í Odda og vígði hana heilögum Nikulási, verndardýrlingi m.a. skólapilta, farmanna, ferðamanna og barna. Nikulás þróaðist öldum síðar í persónuna Santa Claus, með blöndun við aðra vætti, og klæðist enn rauðum fötum með hvítum skinnbryddingum að hætti heilags Nikulásar.

Í sögum af Nikulási segir frá dularfullum verum sem fylgdu honum, ýmist nokkrir hrekkjalómar eða stakur púki. Þessar illvættir hóta að ræna óþekkum börnum eða framkvæma illvirki. En Nikulás kemur ávallt til bjargar, kemur böndum á púkann og refsar honum harðlega. Á miðöldum, þegar flestir voru ólæsir, voru haldnir helgileikir til að kenna fólki sögurnar um dýrling viðkomandi kirkju. Einhver brá sér í hlutverk Nikulásar og einn eða fleiri í hlutverk púkanna.

Það má kannski ímynda sér að uppruna þjóðsagnanna um Sæmund og Kölska, sem er að finna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, megi rekja til helgileikja um Nikulás og púkann sem leiknir voru í Odda. Smám saman hafa frásagnir af helgileikjunum gert Sæmund að aðalpersónu í stað Nikulásar, og púkann að sjálfum Kölska. Það er kannski ekki óeðlilegt ef Sæmundur hefur sjálfur leikið Nikulás, fyrstu árin eftir að kirkjan var reist. En hver skyldi þá hafa leikið púkann? Kannski fjósastrákurinn?

FRÆÐIMAÐUR, LÖGSPEKINGUR, FAÐIR OG AFI
Vitað er um tvö ritverk eftir Sæmund. Annað er um stjórnarár og ævi tíu Noregskonunga. Það markar upphaf ritaldar á Íslandi og Sæmundur því nefndur fyrsti íslenski rithöfundurinn. Hitt er skrá með ættartölu Oddaverja, sem rakin er til Danakonunga er nefndust Skjöldungar. Þessi verk lögðu grunninn að ritun konungasagna á Íslandi. Sæmundur gæti hafa skrifað Veraldarsögu, þar sem sagt er frá sköpun heimsins og mannkynssagan rakin eftir ríkisárum konunga. Sæmundur og biskupar Skálholts og Hóla hvöttu Ara fróða að rita Íslendingabók og Sæmundur las yfir verkið. Vitnað er til Sæmundar í ýmsum ritum, m.a. í Landnámabók um Íslandsferð Naddodds, sem gaf landinu nafnið Snæland.

Sæmundur vann að tíundarlögum, 1096, ásamt Gissuri Ísleifssyni, biskupi og Markúsi Skeggjasyni, lögsögumanni. Tíundin var fyrsti almenni skattur hér á landi og Ísland fyrst Norðurlanda að samþykkja tíundarlög. Sæmundur gaf kirkju sinni alla Oddajörð með gögnum og gæðum. Þannig varð til sjálfseignarstofnun, staður, sem Sæmundur og niðjar hans urðu síðan forráðamenn yfir. Auðugir kirkjustaðir og vel menntaðir kirkjugoðar urðu grunnurinn að gullöld íslenskra bókmennta.

Sæmundur gekk að eiga Guðrúnu Kolbeinsdóttur. Börn þeirra voru Eyjólfur, Loftur, Loðmundur og Þórey. Eyjólfur var prestur og mun hafa verið goði. Hann var mikill lærdómsmaður og kenndi sveinum í Odda. Loftur giftist Þóru Magnúsdóttur í Noregi, laundóttur Magnúsar berfætts Noregskonungs. Jón Loftsson, hið konungborna afabarn Sæmundar, kom 11 ára til Íslands skömmu eftir andlát Sæmundar, 22. maí 1133.

KONUNGBORNI STÓRHÖFÐINGINN
Jón Loftsson var um tvítugt þegar tvö systkini fluttust í Odda, þau Ragnheiður og Þorlákur. Hann settist á skólabekk hjá Eyjólfi, var frábær námsmaður og fór í skóla í Lincoln og París. Jón studdi hann síðar til biskupsembættis og eftir dauða sinn varð Þorlákur fyrsti íslenski dýrlingurinn, Þorlákur helgi, sem við minnumst á Þorláksmessu.

Jón tók við Oddastað og goðorði Eyjólfs að honum látnum og giftist Halldóru Brandsdóttur en átti jafnframt börn með öðrum konum, þar á meðal með Ragnheiði, systur biskups. Þorlákur var fylgismaður kirkjuvaldsstefnunnar, sem kvað á um að kirkjan skyldi óháð veraldlegu valdi og því skyldi biskup hafa forráð fyrir kirkjum. Jón var valdamesti maður landsins og stóð harður gegn kröfum biskups, sem loks varð undan að láta. Þorlákur hótaði Jóni bannfæringar vegna frillulífis og kom næstum til blóðsúthellinga vegna átaka þeirra. Jón gaf loks eftir og sleit samvistum við Ragnheiði.

Jón Loftsson og synir náðu á sitt vald öllum þremur goðorðum í Rangárþingi. Oddaverjar höfðu þá stofnað „héraðsríki“ með Odda sem miðstöð. Þetta er upphaf Rangárvallasýslu. Jón hefur verið kallaður „ókrýndur konungur Íslands.“ Með Halldóru átti hann Sæmund og Solveigu en sex syni með öðrum konum. Þekktastir eru synir hans og Ragnheiðar, Ormur á Breiðabólstað og Páll, sem varð biskup í Skálholti eftir Þorlák, móðurbróður sinn.

FÓSTURSONURINN FRÆGI: SNORRI STURLUSON
Í samfélagi fæðardeilna og blóðhefnda var Jón Loftsson ítrekað fenginn til að koma á sáttum. Hann var beðinn að leysa úr deilu Páls Sölvasonar í Reykholti og Hvamm-Sturlu Þórðarsonar í Deildartungumálum. Sturla krafðist hárra bóta fyrir áverka sem Þorbjörg, kona Páls, hafði veitt honum. Jón vildi ekki fallast á kröfu Sturlu, en sýndi honum ýmsan sóma og bauð að taka son hans, Snorra, í fóstur. Sturla féllst á lægri bætur og Snorri litli var því sendur í Odda, þriggja ára gamall.

Í formála Heimskringlu skrifar Snorri: „Í bók þessa lét ég rita fornar frásagnir um höfðingja þá er ríki hafa haft á Norðurlöndum og á danska tungu mælt, svo sem ég hef heyrt fróða menn segja, svo og nokkurar kynkvíslir þeirra eftir því sem mér hefir kennt verið.“ Hér gæti Snorri verið að vísa í nám sitt í Odda. Hann hefur lært lög og ættvísi, kynnst fræðum Sæmundar, hlýtt á fornar sögur, kvæði sagnamanna og tileinkað sér þekkingu á skáldskap eins og verk hans sýna. Það má ætla að grunnur að þekkingu Snorra á konungasögum, dróttkvæðum og lögum hafi verið lagður í Odda.

Snorri var 18 ára þegar Jón Loftsson lést. Þórður, bróðir Snorra, og Sæmundur Jónsson útveguðu Snorra gjaforð: Herdísi, dóttur Bersa auðga á Borg á Mýrum. Þau bjuggu fyrst í Odda en um 1206 hlaut Snorri forráð Reykholts, þar sem þeir atburðir höfðu gerst sem urðu orsökin að farsælu fóstri hans í Odda.

ENDALOK ODDAVERJA
Páll Jónsson varð biskup í Skálholti og lét taka Þorlák í heilagra manna tölu árið 1198. Páll nam á Englandi og varð hámenntaður, unni fögrum listum og var mikill bókamaður. Giskað hefur verið á að hann hafi skrifað eða látið skrifa Skjöldungasögu og Orkneyingasögu. Hann skiptist á mörgum virðingargjöfum við útlenda höfðingja. Útskurðarmeistarinn Margrét haga var í þjónustu Páls og gæti hafa skorið biskupstaf hans úr rostungstönn. Hugsanlega einnig hina frægu taflmenn, sem fundust á Lewis (Ljóðhúsum) snemma á 19. öld. Mögulega áttu þeir að vera ein af virðingargjöfum Páls biskups.

Sæmundur Jónsson var kallaður göfgastur maður á Íslandi og hafði rausnarbú í Odda. Orð fóru á milli hans og Haraldar Maddaðarsonar Orkneyjajarls að hann giftist Langlíf jarlsdóttur, en jarlinn vildi ekki senda hana yfir hafið til brúðkaups. Sæmundur kvæntist aldrei en átti margar frillur. Árlega hélt hann veislu í Odda á ártíðardegi heilags Nikulásar, 6. desember og einnig á vígsludegi Oddakirkju á Seljumannamessu, þann 8. júlí.

Sæmundur var valdamesti maður landsins í rúm 20 ár, en fékk norska kaupmenn og norska konungsvaldið upp á móti sér. Hann lést 1222. Loftur Pálsson, biskups, braust til forystu en lenti í skærum við Haukdæli úr Árnesþingi. Ný öld metnaðarfullra höfðingjasona var gengin í garð: Sturlungaöld. Afabarn Sæmundar, Þórður Andrésson, stóð gegn ásælni Gissurar jarls Þorvaldssonar til valda í Rangárþingi. Gissur náði Þórði á sitt vald og lét hálshöggva hann 1264. Sighvatur Hálfdanarson, Sæmundssonar, á Keldum réði síðastur Oddaverja fyrir Oddastað. Hann lést um 1305.