Oddarannsóknin hófst sumarið 2016 þegar Oddafélagið stóð fyrir því að gera tilraunir með að fara með jarðsjá yfir svæðið heima í Odda. Það var Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur, sem stýrði því verki. Í kjölfarið gerði Oddafélagið samning við Fornleifastofnun Íslands um að skipuleggja fornleifarannsóknir í Odda sem hófust sumarið 2018 undir stjórn Kristborgar Þórsdóttur. Áður en langt var um liðið uppgötvaðist manngerður hellir sem aldursgreindur hefur verið til 10. aldar og er því elsta uppistandandi mannvirki á Íslandi sem vitað er um.
Ritmenning íslenskra miðalda, RÍM, er þverfaglegt rannsóknarverkefni til fimm ára á þeim stöðum þar sem ritstofur voru starfandi á miðöldum, þ.e. Odda, Þingeyrum, Staðarhóli í Dölum og í Reykholti. Það voru forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Stofnun Árna Magnússonar og Snorrastofa í Reykholti sem stofnuðu til þessa verkefnis árið 2019 í tilefni þess að 75 ár voru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi. Verkefnið skiptist annars vegar í rannsókn á menningarminjum og umhverfi og hins vegar rannsókn á handritum og bókmenningu staðanna.
Oddarannsóknin skiptist því annars vegar í fornleifarannsókn í Odda undir stjórn Kristborgar Þórsdóttur og hins vegar í rannsókn á undirstöðum ritmenningar í Odda undir stjórn Helga Þorlákssonar, en með honum í teymi eru Ármann Jakobsson og Sverrir Jakobsson. Rannsókn á umhverfi og mannvist er undir stjórn Egils Erlendssonar.
Oddarannsóknin nýtur styrks frá RÍM, en aðrir styrktaraðilar eru m.a. Héraðsnefnd Rangæinga, Uppbyggingarsjóður Suðurlands og ráðherra nýsköpunar-, iðnaðar- og ferðamála.