Langekra var ein af hjáleigum Oddastaðar og síðar sjálfstæð bújörð. Þegar síðustu ábúendur brugðu búi fékk Oddafélagið bæjarhúsið til afnota og hefur unnið að endurnýjun þess í þeim tilgangi að skapa aðstöðu fyrir félagið og ýmsa starfsemi á vegum þess.
Frá því að fornleifauppgröftur hófst í Odda 2018 hafa fornleifafræðingar haft gistiaðstöðu í Ekru og aðstöðu fyrir ýmsan búnað í gömlu hlöðunni.
Hugmyndin er sú að í Ekru verði einnig vinnustofa með gistingu fyrir fræðimenn, sem vilja njóta næðis og kyrrðar við eitt sögufrægasta höfuðból Suðurlands.
Oddafélagið hefur fundaraðstöðu í stofunni, sem nefnd er Freysteinsstofa, en þar er bókagjöf Freysteins Sigurðssonar jarðfræðings til Oddafélagsins, en hann var einn af stofnendum þess og stjórnarmaður frá upphafi. Hann lést 29. desember 2008.
Með framkvæmdum í Ekru vill Oddafélagið einnig búa til svolitla móttöku og kaffihús fyrir gesti sem heimsækja Oddastað til að kynna sér fornleifauppgröftinn eða aðra starfsemi á vegum félagsins.